Fréttaritar Trölla.is, þau hjónin Kristín Sigurjónsdóttir og Gunnar Smári Helgason dvelja hluta úr ári á Gran Canaria. Þau búa í helli sem þau eiga í Angostura gljúfri ásamt 25.000 fm. landi í fjöllunum fyrir ofan bæinn Vecindario.

Í dag eru 50 dagar síðan stjórnvöld settu á útgöngubann hér á Gran Canaria og 52 dagar síðan ég hef séð aðra mannveru en Gunnar Smára. Það stendur til að halda útgöngubanninu til 10. maí. Sú tilslökun var gerð í gær að nú mega íbúar Spánar fara út og ganga í eina klukkustund á dag eftir afar ströngum reglum. Þetta gagnast mér ekki þar sem fólk má ekki fara lengra en 1 kílómeter frá heimilinu, þannig að ég verð að bíða enn um sinn með að fara til byggða.

Þessi vika hefur gengið löturhægt hjá mér og erum við Gunnar Smári sammála um að þessi vika hefur verið okkur erfiðust frá því að útgöngubann var sett á.

Við höfum þó ekki lagst í einhvern barlóm, búið að vera fullt að gera hjá okkur. Gunnar Smári hefur verið við smíði á hljóðvinnustofunni og unnið önnur verkefni sem hafa komið upp við hljóðvinnslu. Einnig hefur hann verið í hönnun og smíði á hljóðspilara sem fer í notkun í sumar.

Ég ákvað að fara í svaka átak, hélt að ég væri orðin 25 ára aftur og fór að taka armbeygjur eins og enginn væri morgundagurinn sem ýfðu upp gamalt brjósklos í hálsinum. Við það fór ég að haga mér eins og 62 ára kerling og nota skynsamlega þessi fínu lóð sem Gunnar Smári smíðaði handa mér.

Einnig var skemmtilegt verkefni hjá okkur að útbúa matarskammtara fyrir kettina, áður hafði verið útbúinn vatnsskammtari sem virkar vel.

Segjum við frá þessu og ýmsu öðru í myndbandinu.