Markmið listamannalauna er að efla listsköpun í landinu og hefur verið lögð áhersla á að þau hækki í samræmi við launa og verðlagshækkun. Að þessu sinni hækkuðu listamannalaun því um 4,6% í úthlutun ársins 2022.

Samhliða því var sett sérstök 100 milljón króna hækkun samkvæmt fjárlögum ársins 2022 til að hækka listamannalaun. Með því hækkaði hver mánaðargreiðsla um 62.500 kr. og eru listamannalaun ársins því 490.920 kr. á mánuði. Úthlutun fengu 236 listamenn.

„Á Íslandi starfar átta prósent vinnuafls við skapandi greinar. Starfslaun skipta sköpun, þau efla listsköpun, styðja við frumsköpun og listin endurspeglar tíðarandann hverju sinni. Þessi hækkun er ekki síður mikilvæg vegna þeirra fordæmalausu tíma sem menningarlífið hefur staðið frammi fyrir. Við vitum vel að styrkir til menningarmála skila sér margfalt aftur inn í hagkerfið og ég tel að það sé mikilvægt að við hækkum listamannalaun áfram í skrefum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra.

Samkvæmt núgildandi lögum eru launasjóðir listamanna sex talsins og til úthlutunar voru 1600 mánaðarlaun. Úthlutunarnefndir fara yfir allar umsóknir og veita umfjöllun.

 • Launasjóði hönnuða. 50 mánuðir voru til úthlutunar, sótt var um 488 mánuði.
  Starfslaun fá 9 hönnuðir, 7 konur og 2 karlar, 64 umsóknir bárust.
 • Launasjóði myndlistarmanna. 435 mánuðir voru til úthlutunar, sótt var um 2887 mánuði. Starfslaun fá 73 myndlistarmenn, 44 konur og 29 karlar, 282 umsóknir bárust.
 • Launasjóði rithöfunda. 555 mánuðir voru til úthlutunar, sótt var um 2628 mánuði.
  Starfslaun fá 80 rithöfundar, 41 kona og 39 karlar, 237 umsóknir bárust.
 • Launasjóði sviðslistafólks. 190 mánuðir voru til úthlutunar, sótt var um 2106 mánuði (1789 frá hópum og 317 frá einstaklingum). Alls bárust umsóknir frá 149 sviðslistahópum með um 990 listamönnum innanborðs og 45 einstaklingsumsóknir.
  • Einstaklingsstarfslaun fá 7 sviðslistamenn í 17 mánuði, 4 konur og 3 karlar.
  • Úthlutun til hópa úr launasjóði sviðslistafólks er ekki tilbúin. Tengist úthlutun úr sviðslistasjóði. Upplýsingar verða uppfærðar eins fljótt og auðið er.
 • Launasjóði tónlistarflytjenda. 180 mánuðir voru til úthlutunar, sótt var um 1304 mánuði. Starfslaun fá 36 tónlistarmenn, 19 konur og 17 karlar, 188 umsóknir bárust
 • Launasjóði tónskálda. 281 mánuður voru til úthlutunar, sótt var um 1330 mánuði.
  Starfslaun fá 31 tónskáld, 14 konur og 17 karlar, 152 umsóknir bárust.

Skoða á vef Stjórnarráðsins