Fengum fyrirspurn frá lesenda varðandi viðbrögð sveitarfélagsins við sameiningu Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf. í Fjallabyggð.
Hér að neðan má sjá spurningar og svör. Þökkum við Fjallabyggð fyrir greinargóð svör.

Spurt var:
1. Mun Fjallabyggð ganga eftir því að það félag sem verði til við samruna Ísfélags Vestamanneyja og Ramma standi við þá skuldbindandi yfirlýsingu sem Ólafur Marteinsson gaf Siglufjarðarbæ, við kaupin á Þormóði ramma af þáverandi fjármálaráðherra Ólafi Ragnari Grímssyni.

2. Hefur bæjarstjórn fundað með forsvarsmönnum Ramma um hvort áform séu uppi um mikla hagræðingu í starfsmannahaldi í kjölfar sameiningarinnar t.d. fækkun skrifstofufólks ofl.

Svar frá Fjallabyggð:
1. Enn hefur ekki orðið af samrunanum þar sem samþykki Samkeppniseftirlitsins þarf til að svo geti orðið. Við samruna tveggja félaga, er annað fyrirtækið yfirtökufélag og hitt fyrirtækið yfirtekið félag. Ekki verður til nýtt félag við samruna. Í tilfelli Ísfélags Vestmannaeyja hf. og Ramma hf  er ÍV yfirtökufélagið, sem við samruna, tekur yfir allar skuldbindingar yfirtekna félagsins þ.e. Ramma hf.

2. Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs hafa, hvert í sínu lagi, átt samtöl við framkvæmdastjóra Ramma hf. Bæjarstjóri hefur auk þess átt í samskiptum við framkvæmdastjóra Ísfélagsins. Ekkert sem fram hefur komið í þessum samskiptum gefur tilefni til þess að ætla að starfsfólki í Fjallabyggð muni fækka.

ÞAÐ MÁ SENDA OKKUR NAFNLAUSA SPURNINGU OG VIÐ LEITUM SVARS:

TILVALIÐ AÐ SENDA OKKUR SPURNINGU, T.D. VARÐANDI SAMFÉLAGSMÁL OG ÞESS HÁTTAR.
VIÐ ÁSKILJUM OKKUR ALLAN RÉTT TIL AÐ ÁKVEÐA HVORT SPURNINGIN EÐA SVARIÐ VERÐA BIRT.
FARIÐ INN Á: AÐ HAFA SAMBAND TIL AÐ BERA FRAM SPURNINGU.

Rammi hf og Ísfélag Vestmannaeyja sameinast