Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp um leiðir til að jafna aðgengi landsmanna að ýmiskonar sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði óháð búsetu. Liður í því er að gera tillögur um hvernig nýta megi sérstök ákvæði um ívilnum í lögum um Menntasjóð námsmanna til að styrkja mönnun heilbrigðisþjónustu, einkum í dreifðum byggðum. Markmiðið er að jafna aðgengi landsmanna að þjónustu sérfræðinga á heilbrigðissviði óháð búsetu. Aðgerð þessa efnis er skilgreind í þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun til ársins 2036 sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið sumar.
Í VII kafla laga um Menntasjóð námsmanna eru ákvæði um sértækar aðgerðir sem lúta að tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána við sérstök skilyrði. Annars vegar er samkvæmt 27. gr. laganna heimilt að beita ívilnuninni ef fyrir liggja upplýsingar um viðvarandi eða fyrirsjáanlegan skort á fólki með tiltekna menntun. Markmiðið er að skapa sérstakan hvata fyrir fólk til að sækja sér þá tilteknu menntun og til að starfa í tiltekinni starfsgrein. Hins vegar er samkvæmt 28. gr. laganna heimilt að beita umræddri ívilnun til að bregðast við ástandi þar sem skortur er á menntuðum einstaklingum á ákveðnum svæðum. Ívilnunin er þá bundin því skilyrði að lánþegi sem búsettur er á viðkomandi svæði nýti í reynd menntun sína til starfa í a.m.k. 50% starfshlutfalli í viðkomandi byggð í að lágmarki tvö ár.
Verkefni starfshópsins
Verkefni starfshóps heilbrigðisráðherra er m.a. að gera tillögur um reglur, viðmið og leiðir sem gera veitendum heilbrigðisþjónustu kleift að nýta fyrrnefnd ívilnunarákvæði laga um Menntasjóð námsmanna í samræmi við þau skilyrði sem þar eru sett. Þau lúta meðal annars að því hvaða upplýsingar þurfa að liggja fyrir og hvaða aðstæður þurfa að vera fyrir hendi svo heimilt sé að beita ákvæðunum um tímabundna ívilnun við endurgreiðslu námslána. Starfshópurinn er skipaður eftirtöldum aðilum:
- Reinhard Reynisson, tilnefndur af Byggðastofnun, formaður hópsins
- Ester Petra Gunnarsdóttir, án tilnefningar
- Baldvina Ýr Hafsteinsdóttir, tilnefnd af Landssamtökum heilbrigðisstofnana
- Gylfi Ólafsson, tilnefndur af Landssamtökum heilbrigðisstofnana
- Valgerður Rún Benediktsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
- María Guðjónsdóttir, tilnefnd af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti
Starfshópurinn skal skila tillögum sínum til heilbrigðisráðherra fyrir lok mars 2023.