Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur tryggt að foreldrar sem verða fyrir fósturmissi á öðrum þriðjungi meðgöngu eigi kost á heimavitjun frá ljósmóður. Ákvæði þess efnis hefur verið bætt inn í rammasamning Sjúkratrygginga Íslands um þjónustu ljósmæðra vegna fæðinga og umönnunar sængurkvenna í heimahúsum.
Breytingin veitir konum sem ganga í gegnum fósturmissi á 12. til 22. viku meðgöngu rétt á heimavitjun ljósmóður. Hingað til hafa heimavitjanir í kjölfar fósturmissis eða fæðingar andvana barns einskorðast við að meðganga hafi varað í 22 vikur að lágmarki.
Willum Þór segir þetta mikilvæga þjónustu fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga sem snúi jafnt að líkamlegri og andlegri velferð. „Áður en ég tók þessa ákvörðun átti ég góðan fund með samtökunum Gleym mér ei þar sem við ræddum um þörfina fyrir þessa breytingu og hve þýðingarmikið sé að veita þennan stuðning. Þetta er jafnframt í samræmi við aðgerðaáætlun heilbrigðisráðuneytisins um barneignarþjónustu til ársins 2030 og ég er afar ánægður með að þetta sé nú orðið hluti af fyrrnefndum samningi um þjónustu ljósmæðra í heimahúsum.“
Mynd/Hari