Í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins sl vetur var auglýst eftir fólki í bakvarðasveit Dalbæjar.  Viðbrögðin voru mjög góð og á skömmum tíma var kominn hópur fólks á listann.

Ekki hefur enn komið  til þess að kalla þurfi  eftir aðstoð frá bakvarðasveitinni  en nú þegar faraldurinn hefur náð nýjum hæðum aftur er þörf á að hafa þennan möguleika fyrir hendi.  Ef margir starfsmenn Dalbæjar þurfa í sóttkví/veikjast eða ef þær aðstæður skapast á heimilinu að kalla þarf eftir viðbótar mannskap þá getur það skipt sköpum fyrir starfsemi heimilisins og aðbúnað íbúanna að fá til liðs við okkur fleira fólk.

Þeir sem þegar hafa gefið kost á sér í bakvarðasveitina eru enn á listanum okkar.  Ef fleiri vilja gefa kost á sér þá vinsamlegast sendið nafn og símanúmer á dalvikurbyggd@dalvikurbyggd.is.  Líkt og sl. vetur þá leitum við eftir fólki sem gæti sinnt umönnunarstörfum eða eldhússtörfum. M.a. þeim sem hafa unnið á Dalbæ, þeim sem hafa reynslu af umönnunarstörfum og þeim sem eru hraustir og geta unnið hlutastarf tímabundið. Bakverðir fá greidd laun skv. gildandi kjarasamningum.

Mynd/Dalvíkurbyggð