Um árabil hefur verið bannað að nota snjallsíma og sambærileg tæki í grunnskólum víða um land, a.m.k. í yngri bekkjum.
Nú er Grunnskóli Húnaþings vestra nýbúinn að gefa út skýr skilaboð til foreldra nemenda í 1. – 4. bekk:
“Foreldrar nemenda í 1. – 4. bekk verða að tryggja það að ekki sé hægt að hringja í eða úr sjallúrum/farsímum á meðan skólatíma og frístund stendur. Ef breytingar verða á frístund eða skólatíma nemenda þaf að hafa samband við starfsfólk skólans.”
Til stendur að banna þessi tæki alfarið í skólanum og er m.a. vitnað í persónuverndarlög hvað varðar myndatöku án vitundar og samþykkis. “Vandséð er hvernig starfsfólk skólans getur framfylgt þessum lögum ef nemendur og starfsfólk eru með síma í frímínútum eða tímum.”
Einnig er vísað til rannsókna sem sýna fram á að börn taki snjalltæki fram yfir “raunveruleg samskipti” við vini sína.
“Að sjálfsögðu munu gilda sömu reglur um starfsfólk innan um nemendur, enda símar í hverri kennslustofu og því auðvelt að kalla til aðstoð eða ná í starfsfólk ef þörf krefur.”
Frétt: Gunnar Smári Helgason
Heimild: Grunnskóli Húnaþings vestra