“Sunnuhjónin” á Siglufirði eiga og reka fyrirtækið HEHIPA ehf.

Bjarni Rúnar Bequette og Halldóra Guðjónsdóttir fluttu til Siglufjarðar fyrri hluta árs 2018 þegar þau tóku við veitingasviðinu hjá Hannes Boy, Rauðku og Sigló Hóteli.
Jimmy Wallster og Sólrún Guðjónsdóttir fluttu svo í ágúst sama ár. Áður störfuðu þau öll fjögur saman hjá stórri íslenskri hótelkeðju, Íslandshótel.

Þau eru öll mjög viðkunnanlegar manneskjur sem hafa þægilega nærveru og eru mjög metnaðarfull við uppbyggingu á rekstrinum.

Þegar Fosshotel Reykjavík með 320 herbergi var opnað, var Jimmy hótelstjóri, Halldóra móttökustjóri, Bjarni yfirkokkur og Sólrún í tekjustýringadeild keðjunnar.

Halldóra og Sólrún bera sama föðurnafn svo við spurðum hvort þær væru systur. “Nei” segja báðar hlægjandi, “en við erum oft spurðar að því”.

Hvernig kunnið þið við ykkur á Siglufirði?

“Bara geggjað” segir Bjarni, “elska það” segir Jimmy og konurnar taka undir með sínum mönnum. “Fólk hér er jákvætt, gott að búa hér með börn, fólk er ekki á bremsunni þegar komið er með nýjar hugmyndir”.

Bjarni og Halldóra eiga tvö börn, en Jimmy og Sólrún eitt. Báðar fjölskyldurnar hafa keypt sér hús á Siglufirði og ætla að búa þar áfram.

Þegar Bjarni og Halldóra voru flutt norður fór Bjarni að tala um það við Jimmy að hann ætti líka að flytja til Siglufjarðar, en Jimmy og frú voru aldeilis ekki á því til að byrja með, “en hér er hann í dag” segir Bjarni glettinn og kímir við. Vel gekk að komast inn í bæjarlífið, Bjarni er í fótboltanum og Halldóra kynnist fólki í foreldrafélagi leikskólans, auk þess er hún í stýrihópi um Síldarævintýrið.

Jimmy er sænskur í báðar ættir, fæddur og uppalinn í Svíþjóð og talar óaðfinnanlega íslensku. Hann kom fyrst til Íslands 2007 til að vinna sem þjónn í tvo mánuði, langaði að kynnast fólki frá örðum löndum og ákvað að byrja á Íslandi. Var ráðinn sem þjónn í Skaftafelli í september en staðir lokuðu í október á þeim árum. Í Skaftafelli vann líka stúlkan Sólrún og tókust kynni með þeim Jimmy og Sólrúnu þar. Skaftafell er svona “in middle of nowhere” segir Jimmy, sem sagt frekar afskekkt, þrjú korter til Kirkjubæjarklausturs og hálfur annar tími til Hafnar í Hornafirði, svo þau höfðu lítið við að vera annað en kynnast hvort öðru, og hafa haldið hópinn síðan.

Hvers vegna heitir félagið HEHIPA?

“Sunnuhjónin” eiga HEHIPA ehf sem sér um allan veitingarekstur og rekur m.a. Veitingastaðinn Sunnu.
“Þetta eru fyrstu stafirnir í nöfnum barnanna okkar sem heita Helga, Hilmir og Paul”.
Veitingastaðurinn Sunna og Sigló hótel eru rekin af aðskildum félögum, HEHIPA ehf rekur veitingarnar og Selvík ehf sér um hótelreksturinn.

Þegar þau eru spurð um titla, er svarið:

“Við erum bara tvær fjölskyldur sem reka veitingastaðinn og við göngum í öll störf”.
Halldóra er menntaður þjónn, sér um bókanir og samskipti við hópa, starfaði sem hótelstjóri á Fosshotel Núpum og Fosshotel Heklu, er menntaður framreiðslumaður, Bjarni er kokkur og stýrir eldhúsinu, Jimmy er þjónn og sér um daglegan rekstur “á gólfinu” og Sólrún er talnaglöggur Tálknfirðingur og sér um morgunmatinn. Vaktirnar voru oft langar hjá þeim í sumar, allt upp í 3 mánuðir án frídaga.

Hvernig hefur reksturinn gengið?

“Reksturinn í sumar fór fram úr öllum vonum”. Síðasta vetur var lokað í hálfan annan mánuð og útlitið svart, ekkert verið að bóka. Mikið var um afbókanir hjá hótelinu, svo mikið að það þurfti að bæta við starfsmanni í móttökuna til að sinna afbókunum.

Ætlunin var að hafa síðan bara opið um helgar og var fyrst opið yfir helgina 6. maí. Svo allt í einu fór bókunum að rigna inn og frá helginni á eftir hefur verið opið og svo miklu meira að gera að ráða þurfti fleira fólk. Í júlí var allt smekkfullt og þurfti jafnvel að vísa fólki frá þegar mest var. Júní var líka mjög góður. Íslendingar hafa verið stór hluti gesta síðan í fyrrasumar, og þau markaðssetja staðinn sérstaklega með íslenska viðskiptavini í huga, svo er líka enn meiri aukning vegna þess hve Íslendingar voru duglegir að ferðast innanlands í sumar.

Hvernig eru svo horfurnar næsta vetur?

Gistibókanir á hótelinu hafa oft gefið hugmynd um hvers má vænta fyrir veitingastaðinn, en í fyrrasumar fór Íslendingum að fjölga. Þegar búið var að laga orðsporið af matnum hópuðust hótelgestir á veitingastaðinn og nú er algengt að fólk bókar fyrst veitingastaðinn og svo hótelið, en áður var það oftast þannig að fólk bókaði bara hótel og veitingastaðurinn sóttist eftir hótelgestum. Viðskiptavinir hafa verið allir ótrúlega ánægðir og margir farið út á bleiku skýi, svo orðsporið er líklega besta auglýsingin. Framundan eru jólahlaðborð, litlar 10 – 20 manna árshátíðir, skíðagönguhópar, golfarar o.fl. Veitingastaðurinn Sunna er aðal fókusinn, en jólahlaðborðin verða í Rauðku. Allt árið er skipulagt og mikil aðsókn svo framtíðin er björt.

Nýr matseðill sem verður skemmtilegur og spennandi er væntanlegur með haustinu, eftir að tökum á Ófærð lýkur, “við ætlum að leika okkur aðeins því þá höfum aðeins meiri tíma” segir Bjarni.

Þau hafa verið að bæta við starfsfólki hjá Sunnu og ráða fólk til lengri tíma, minnst eitt ár til að þjálfa upp yfir veturinn og svo sumarið gangi vel. Það skilar sér vel að hafa fólk með reynslu.

Hvað með heimamenn, koma þeir á veitingastaðinn Sunnu?

Í byrjun var ekki mikið um heimamenn á veitingastaðnum, en nú eru þeir farnir að koma mikið, ýmsir hópar t.d. saumaklúbbar, vinahópar o.fl. og heimamenn gista líka á hótelinu til að gera sér glaðan dag.

Hvaða tungumál tala þjónarnir?

Hjá Veitingastaðnum Sunnu er hlutfall starfsfólks sem talar íslensku hátt, Íslendingar gera kröfur um að þjónar tali íslensku, það er þó ekki alveg eins viðkvæmt og var fyrir nokkrum árum. Þau leggja áherslu á að þeir sem umgangast gestina tali íslensku, “annars tölum við alls konar tungumál í eldhúsinu” segir Bjarni og hlær.

Það er óhætt að fullyrða að Siglfirðingar geta verið ánægðir með að fá þessar ungu og kraftmiklu fjölskyldur til Siglufjarðar. Trölli.is óskar þeim velfarnaðar í lífi og starfi.

Sigló hótel, Veitingastaðurinn Sunna

Á forsíðumynd eru f.v. Sólrún, Jimmy, Bjarni og Halldóra.