Minning um mann.
” Í dag 8. júlí eru 100 ár síðan pabbi minn, Kristinn T Möller fæddist. Ég ætla að setja hér inn fáein orð um hann, þó farið sé að kvarnast úr þeim hópi sem man eftir honum.”
Svo byrjar Ómar Möller frændi minn, minningapistil sinn á 100 ára árstíð föður síns. Undirritaður vissi þó fyrir nokkru síðan að Ómar væri að vinna í þessari samantekt í myndum og máli og áttum við spjall saman á Messenger varðandi merkilega 90 ára gamla ljósmynd, en honum vantaði aðstoð við að laga bæði gæði og skerpu á þessari ljósmynd.
Samtímis falaðist undirritaður eftir leyfi til að fá að birta bæði myndir og texta hér á trölli.is og var það leyfi auðsótt.
Því augljóst er að margir eldri Siglfirðingar nær og fjær, sem og fólk í Vestmannaeyjum, Reykjavík og jafnvel á austfjörðum vilja minnast verkstjórans síns sem bar þetta sérstaka “Bassi” nafn alla ævi.
Persónulega minnist ég Bassa sem skemmtilega ömmu bróðurins með stórt hjarta sem alltaf gaf sér tíma til að spjalla og leika við börn.
En nú við gefum Ómari orðið og látum ljósmyndirnar tala líka….
… Foreldrar pabba voru Jóna Rögnvaldsdóttir og Christian L Möller. Pabbi ólst upp í stórum systkinahópi og ung fóru þau að vinna í síldinni á sumrin og þurftu snemma að hafa fyrir hlutunum.
ATH. Hægt er að skoða myndirnar einar og sér með því að smella á mynd og þá er hægt að fletta ljósmyndunum fram og til baka.
Pabbi var kallaður Bassi frá unga aldri og gegndi hann því nafni alla ævi. Svo sterkt var þetta gælunafn á honum að það voru margir sem höfðu ekki hugmynd um hvað hann hét. Bréf fékk hann í pósti sem stíluð voru á Bassa Möller.
Nokkur ár fyrir miðja síðustu öld fóru norðlensk og austfirsk ungmenni mikið í héraðsskólann í Reykholti (Stofnaður árið 1931).
Þangað fór pabbi og þar kynntist hann móður okkar systkina, Sigrúnu Björnsdóttur frá Berunesi við Reyðarfjörð og felldu þau hugi saman. Þau hófu búskap á Siglufirði og byggðu húsið að Suðurgötu 82.
Pabbi handgróf fyrir sökklum með haka og skóflu eftir vinnu á daginn og um helgar. Eins og gengur þurftu þau að fá nokkrar krónur að láni í bankanum. Pabbi fór á fund bankastjóra og hafði teikningarnar af húsinu með sér, bankastjórinn skoðaði teikningarnar drjúga stund og sagði svo ,,Já, svona byggja þeir í Ameríku”.
Er ekki að undra þó að honum hafi þótt mikið til koma því grunnflötur hússins var hvorki meira né minna en 88 fermetrar. Lánið fékk hann. Byggingaár hússins er 1946 og þar ólumst við fjögur systkinin upp til fullorðinsára.
Síðar skildu leiðir foreldra okkar og fluttu þau bæði úr bænum.
Við Magna kaupum húsið af þeim árið 1971 og höfum búið þar síðan, þannig að ég er enn í foreldrahúsum.
Þegar pabbi var í Reykholti stundaði hann fimleika og var í knattspyrnuliði skólans. Nokkuð mörg ár var hann í liði KS hér á Siglufirði.
Hann var ekki stór maður en alveg eldsnöggur. Sagt er að einhverju sinni þegar KS var að keppa við KA frá Akureyri hafi heyrst í einum liðsmanni KA kalla til sinna samherja að það þyrfti að passa vel litla djöfulinn á kantinum.
Myndaalbúm 1: ÍÞRÓTTIR
Eftir skilnað foreldra okkar fór pabbi til Vestmannaeyja og var þar í mörg ár.
Hann vann í Hraðfrystistöðinni og vann í síldinni þegar sú vertíð stóð yfir. Það má segja að síldin hafi verið hans ær og kýr. Honum þótti vænt um árin í Eyjum og eignaðist þar marga góða kunningja.
Tvö eða þrjú ár var hann á Eskifirði og vann á söltunarstöðinni Auðbjörgu og þar var hann á kafi í síldinni, en fór svo aftur til Eyja. Á þessum árum komu nokkuð mörg ungmenni frá Siglufirði á vertíð í Eyjum og unnu þar á meðal í Hraðfrystistöðinni. Pabba þótti vænt um þessa krakka og sagði að þau hafi öll verið hörkudugleg.
Hann tók mikið af ljósmyndum og hafði næmt auga fyrir því fagra, tók geysilega margar myndir af fólkinu sem vann í Hraðfrystistöðinni og starfinu þar. Þegar hann fór frá Eyjum afhenti hann minjasafninu í Vestmannaeyjum myndirnar.
Myndaalbúm 2: BASSI VERKSTJÓRI við vinnu
Þegar pabbi var kominn upp á fastalandið vann hann í nokkur ár í Umbúðamiðstöðinni í Reykjavík, keypti sér íbúð í Kópavogi og kom sér upp mjög fallegu heimili. Hann var mikið snyrtimenni og vildi hafa fínt í kringum sig.
Hann eignaðist góða vinkonu þegar hann flutti upp á land, Hún hét Sigrún Sigurðardóttir. Þau bjuggu ekki saman en áttu góðar stundir saman og Sigrún var eins og ein úr fjölskyldunni hjá okkur öllum.
Hann fylgdist mjög vel með sínum afkomendum og hafði áhuga á því hvað hver og einn var að gera. Barnabörnin og barnabarnabörnin höfðu mjög gaman að því að stríða afa Bassa, honum fannst það gaman og bauð eiginlega upp á það. Þar var mikil væntumþykja á milli.
Myndaalbúm 3: Ýmsar myndir úr fjölskyldualbúmi
Pabbi var verkamaður og verkstjóri alla sína starfsævi og var stoltur af því,. Hann var aldrei atvinnulaus og var eftirsóttur í vinnu. Hann var duglegur, verklaginn og stundvís. Heiðarlegri mann en pabba hef ég enn ekki hitt.
Við vorum miklir vinir og þó að pabbi þyrfti stundum að skamma mig í uppeldinu, (þó ótrúlegt sé) gerði hann það þannig að ég gat aldrei verið reiður við hann. Pabbi bjó í sinni íbúð með aðstoð systkina minna, þar til hann dó þann 23. september árið 2012.
Þegar ég hugsa til baka þá vorum við systkinin heppin að Bassi Möller var pabbi okkar.
Höfundur texta:
Ómar Möller
Uppsetning og myndvinnsla:
Jón Ólafur Björgvinsson
Ljósmyndir úr einkasafni eru birtar með leyfi eigenda og aðrar myndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndsafni Siglufjarðar.
Greinar, Pistlar og fl. eftir sama höfund:
AUTHOR:
JÓN ÓLAFUR BJÖRGVINSSON