Á forsíðu ljósmyndinni sjáum við trilluna „Hafdís SI -100″ (9,52 brl.) koma nýsmíðaða út úr suðurgaflinum á Bátasmíðastöð Sæmundar Jónssonar á Siglufirði, sumarið 1961. Í bakgrunninum sjáum við fjallshlíðina undir Hvanneyrarskála brúninni, því þessi merkilega bátasmíðastöð var staðsett frekar langt upp í fjalli.
Yfirleitt eru bátar smíðaðir nálægt sjó og ekki uppi í fjöllum, en eins og fram kemur í þessari grein, var það í sjálfum sér ekkert verulegt vandamál, en menn þurftu samt að hafa nokkuð mikið fyrir því á koma bátunum út úr húsi og í sjóinn.

Þessi ljósmynd, sem og forsíðu myndin, sýnir okkur að suður gaflinn er hreinlega rifin af húsinu og síðan er bátunum skautað stuttan spöl niður brekku og þar á eftir er þeim ýtt áfram upp á „of stutta“ vörubílapalla.

Eins og sjá má á myndunum, að í hvert skipti sem bátar koma tilbúnir úr „fjallabátasmíðastöð Sæma Jóns“, þarf mikinn mannafla í þessa báta flutninga og samtímis er þetta athyglisvert sjónarspil fyrir bæjarbúa.
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér í fullri stærð.





Ljósmyndari, (allar 5 myndir): Steingrímur Kristinsson.
Svona rétt til að lesendur séu nú ekkert að efast um nafnbótina Fjallabátasmíðastöð, þá birtast ykkur hér tvær myndir sem sýna okkur þessa fjalla staðsetningu, en þetta nú löngu horfna hús, stóð um 100 metrum sunnan við Rafstöðina / Ljósastöðina frægu, sem var tekin í notkun 1936 og hún stendur þarna enn í dag, nú sem sumarbústaður með risastórri ljósavél. Sjá meira hér: Hver býr í Rafstöðinni Amma?
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér í fullri stærð.


Á myndunum hér ofar, sjáum við móta fyrir svörtu 2 hæða íbúðarhúsi, rétt neðan við Bátasmíðastöðina, en þetta er Hólavegur 36, hús sem Sæmi reisti sér og sinni stóru fjölskyldu.

Seinni tíma litmynd, Hólavegur og nágrenni! Líklega eina ljósmyndin, þar sem Fjallabátasmíða hús Sæma Jóns sést almennilega, lengst uppi til hægri. Beint fyrir neðan Hólaveg 36 og 38 er hafin undirbúningsvinna varðandi byggingu á dvalarheimilinu Skálahlíð og þar býr í dag sjálfur ljósmyndarinn. Hin 91 árs gamli Steingrímur Kristinsson.

Söguspjall!
Ástæðan fyrir því að pistlahöfundur er að grafa í þessari sögu, er sprottin úr Messengerspjalli við „Sigrún Björg Sæmundsdóttir“ yngstu dóttur ofannefnda fjallabátasmiðsins og spjallið byrjaði svona:
„Komdu sæll.
Ég hef lesið flest allt sem þú hefur sett inn á Trölla, sem er mikill fróðleikur og gaman líka að lesa … sérstaklega um Sigló og það gamla. Og er ég var að fara yfir gögn í tölvu minni þá datt mér þú í hug. En fyrir ansi mörgum árum þá kynntist ég Árna B Árnasyni á Akureyri, en hann var þá að setja upp síðuna http://www.aba.is/ um bátasmíðar. og þar með um pabba Sæma Jóns, sem var með bátasmíðaverkstæðið sitt upp í fjalli fyrir ofan Hólaveginn. Og inn á síðunni er ótrúlega mikið safn um marga Siglfirðinga og Fljótamenn og hvað þeir hafa smíðað af bátum.. Datt í hug hvort þú hefðir áhuga á þessu 🙂 Kveðja Sigrún (Sigga Sæm )„
Ég datt strax inn í mínar eigin minningar um Sæma Jóns og hans góða fólk og að ég hafi áður birt myndir og nefnt þessa merkilegu bátasmíðastöð í stuttum myndatexta.
Ég fór svo að skoða heimilda síðuna hans Árna um skipasmíði og þá sérstaklega ljósmyndir og kaflann um einmitt fjallabátasmiðinn Sæmund og nú var hún Sigga Sæm, aldeilis búin að kveikja í mér sögu nörda bakteríuna og var ég rétt eins og hún hissa á þeim mikla fjölda af Siglfirskum skipasmiðum sem Árni hafði safnað heimildum um:

Takið einnig eftir ýtarlegri skrá yfir víðtækt efnisyfirlit heimasíðunnar ABA.IS.
Og Sigrún (Sigga) Sæm, heldur áfram í spjallinu og nefnir hér bæði góðar minningar og sorglega atburði og eftirsjá…

„…Ég hafði ekki hugsað út í þetta hvað mikið var um bátasmíðar heima á Sigló, fyrr en ég fór að finna heimildir um þá báta sem pabbi smíðaði, því Árni var fróðleiksbrunnur að tala við. Man mest eftir, ja sérstaklega Sæfara SI 141, þá fékk ég að dunda með pabba...

…Svo í jarðarför Úlla bróður míns hér um daginn, þá fór ég að pæla í að ég væri ein eftir af 7 systkinahóp og ég fór svona sjá eftir að hafa ekki skrifað meira niður, eftir systkinum mínum um pabba og hans smíðar, þá sérstaklega varðandi mublusmíði….
Við andlát ættingja koma oft upp svona hugsanir eins og Sigga Sæm nefnir og þá er oft gaman að sjá að aðrir hafa kannski einmitt safnað heimildum og gert þær aðgengilegar fyrir alla á alheimsnetinu stóra, eins og t.d. bæði varðandi skipasmíða heimildasíðu Árna B Árnasonar, sem og heimildasíðu Steingríms Kristinssonar og ekki má gleyma þeim sögulega fjársjóði sem hægt er að finna í Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Þúsundþjalasmiðurinn Sæmi Jóns!

Völundur og þúsundþjalasmiður eru persónu lýsingarorð, sem einnig er hægt að setja við nöfn allra skipasmiða og einnig vefsíðusmiði, sem nefndir eru í þessari samantekt, en nú verðum við að halda fókus smástund í viðbót á fjallabátasmiðinn Sæmund Jónsson, en hann var fæddur 1915 og lést á Sjúkrahúsi Siglufjarðar 1999.
Sæmi var sjálfmenntaður skipasmiður, sem smíðaði „12 báta á árunum 1938-70″. Steingrímur Kristins hefur haldið til haga ákaflega athyglisverðri minningargrein sem Gunnar Gunnarsson (tengdasonur Sæma) skrifaði á sínum tíma og lýsir hún vel persónu og fjölhæfni Sæma, en í stuttu máli er hans starfsferli lýst svona:
„Sæmundur byrjaði ungur að standa vaktir við Ljósastöðina á Siglufirði. Starfaði hann þar til 1937 er hann hóf störf hjá Síldarverksmiðju ríkisins, þar sem hann var rafvirki til 1953. Hann var síðan vélstjóri við hraðfrystihús SR á Siglufirði til ársloka 1962. Eftir það stundaði hann sjóinn á trillu. Sæmundur var þekktur völundur á Siglufirði og smíðaði tíu báta, m.a. sjö og tíu tonna trillur sem hann átti sjálfur og gerði út.“
Sjá minningarorð hér um ævi, störf og fjölskyldu Sæmundar: Minningargrein frá 1999, Sæmundur Jónsson.
„10 eða 12 bátar?“
Samkvæmt heimildum Árna, smíðaði Sæmi 12 báta á árunum 1938-70:

… og Árna B Árnasyni hefur tekist að finna ljósmyndir af þeim öllum:

Mínar eigin minningar um hinn glaðlynda Sæma Jóns og hans indælu eiginkonu, Jónínu Guðbjörgu Braun, koma gegnum vináttu mína við barnabörn þeirra og skyldleika á ská og mikla og góða vináttu Sæma og afa míns, Péturs F Baldvinssonar.

Það er til ansi skondin saga um hvernig Sæmi vann hjarta eiginkonunnar, en þá var hann að vinna sem línumaður hjá Rafveitu Siglufjarðar:
„Ég varð ungur, bálskotinn í fallegustu stúlkunni í bænum og það voru fleiri á línunni. En mér datt snjallræði í hug. Ég var línumaður þá, uppi á hverjum staur og lét mig falla með mikilli varasemi niður, beint fyrir framan gluggann hjá henni. Og það þurfti ekki meira, ég var fyrstur á vettvang og síðan höfum við ekki skilið.„
Minnist þess vel að þegar við krakkarnir fórum í heimsókn upp á Hólaveg 36, að það var, fyrir mig suðurbæjarguttann, á þessum tíma eins og að labba upp í sveit. Eins og sjá má á svarthvítu ljósmyndunum hér ofar, var þá ekki búið að byggja mörg hús við götuna. Húsið var steinsteyptur kjallari og lengi vel var 2 hæð og ris klætt með svörtum þakpappa.
Það sem var einnig svolítið sérstakt, var að sjálft húsið, stóð nokkra metra neðan við götuna og Sæmi neyddist til að smíða langa upp á við hallandi BRÚ, að aðalinngangi annarrar hæðar. Þetta var ekki Sæma sjálfum um að kenna, heldur að bærinn hafði lofað að sjálf gatan myndi breikka og lækka seinna, en lengi vel varð ekkert úr þessum bæjar framkvæmdum.

Við skriffinnsku á þessari samantekt, átti undirritaður margar skemmtilegar og langar Messenger spjallstundir við Siggu Sæm og minntist hún þess að móður hennar var mjög svo illa við þessa merkilegu „húsabrú,“ því hún var oft hál og hættuleg yfirferðar.
Þegar inn var komið í sjálft húsið, minnist ég þess einnig, að þarna inni var alltaf góð trésmíðaverkstæðislykt, því Sæmi var á efri árum mikið að dunda sér við að smíða húsgögn og annað skemmtilegt uppi í risinu.
Þúsundþjalasmiðurinn: Árni Björn Árnason, f.1935 – d. 2024

Við látum heimildasíðu vefsmiðinn Árna heitinn, kynna sig sjálfan:
„Sjálfsögð kurteisi við lesendur er að skrásetjari geri grein fyrir tilvist sinni þannig að þeir geti lagt mat á hvort hann hafi yfirhöfuð einhverja þekkingu á því, sem vefurinn fjallar um. Fyrst er til að taka að fæðingarár skrásetjara er 1935 og uppalinn er hann í fjöruborðinu á Grenivík. Árið 1957 lá leið skrásetjara til Patreksfjarðar í vélvirkjanám og til Akureyrar kom hann árið 1961 og hefur dvalið þar síðan. Fyrsti vinnustaðurinn á Akureyri var Vélsmiðjan Oddi hf. þá Vélsmiðjan Valur sf. og frá árinu 1964 til ársins 2004 Slippstöðin hf. á Akureyri…
… Skrásetjari lætur lesendum eftir að fella dóm um hæfi hans eða óhæfi til ritunar þess sem vefurinn inniber.„
Aðdáun mín á svona fjöl-hæfni-mönnum eins og Árna er takmarkalaus og það er nokkuð ljóst að fleiri eru mér sammála, ef marka má heimsóknarteljara tölurnar á aba.is. sem í dag stendur í 1.370.168 heimsóknum á þessa merkilegu skipasmíða heimildasíðu.
Það er einnig ánægjulegt að eftirlifandi ættingjar Árna, hafa í samvinnu við Sjómannafélag Eyjafjarðar tryggt okkur áframhaldandi net aðgengi að þessum mikla sögulega skipasmíða gagnabanka.

Undirritaður fékk að vita að þessi formlega afhending fór fram við hátíðlega athöfn, síðastliðinn sjómannadag 1 júní 2025.

Skjáskot frá Facebook síðu Líney Árnadóttur og þar má einnig sjá stutt myndband, með hluta úr ræðu Sigfúsar Ólafs Helgasonar, sem hann flutti við afhendinguna.
Í undirbúningsvinnu fyrir birtingu Þessarar samantektar, hringdi ég einfaldlega inn á Akureyri og fékk formlegt leyfi frá Trausta Jörundssyni formanni SjóEy, til að nota og vitna í ýmsar heimildir og var það auðsótt mál.
Það var einnig mjög svo traustvekjandi að nú þegar eru uppi hugmyndir um setja aba.is síðuna upp í slipp og uppfæra og nútímavæða heimasíðuna. Að mestu leyti er þessi síða í ágætis ástandi. Annars slagið geta komið upp smávægilegar kóða villur, þegar t.d. nýmóðins Goggle Chrome veflesarinn túlkar sumt vitlaust.
Undirritaður getur þó oft saknað þess að nafn ljósmyndara sé getið og það sé t.d. nefnt oftar hvaðan myndirnar koma, en ég dáist samt mikið að þeim hafsjó af fróðleik, um menn og málefni, skip og báta, sem þarna er að finna.

Í augum sjómanna eru góðir skipasmiðir hátt skrifaðir, því þeir treysta þessum smiðum fyrir því að þeir komi heilir á húfi í land, til fjölskyldu og ástvina. Það er einnig athyglisvert að bátar eru oft skírðir eftir látum ættingjum og margir bera falleg kvenmannsnöfn. Oft getur manni fundist að fólk í sjávarplássum Íslands, tali hreinlega um báta sem lifandi persónur, sem gamla frænku eða frænda og að sjálfsögðu viljum við vita ýmislegt um þeirra sköpunar- og ættarsögu.
Við getum þar af leiðandi séð heimildasíðu Árna B Árnasonar, sem einhverskonar „bátaættfræði Íslendingabók“en þar getum við rakið skyldleika okkar við skip og báta úr liðinni tíð.

Ýmsar eigin minningar um báta og skipasmíði heima á Sigló
Undirritaður telur nokkuð víst að margir mér bæði eldri og yngri Siglfirðingar, eigi sér svipaðar minningar um nokkra af þeim þúsundþjalasmiðum sem hér eru nefndir, en bærinn var og er enn fullur af svona körlum sem kunna hreinlega ALLT.
Að sjálfsögðu tengjum við öll við að hafa séð nær daglega báta og skip við Slippstöðina / Dráttarbraut Siglufjarðar, sem nú er í eigu Síldarminjasafns Siglufjarðar.
Sjá meira hér á heimasíðu safnsins: Slippurinn.
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér í fullri stærð.


Í sumarvinnu á unglingsárum hjá Byggingarfélaginu Berg H/f, sem á þessum árum rak einnig Slippstöðina, kynntist maður öðlingunum, Þórarni Vilbergs og Bigga Guðlaugs. Oft var maður sendur sem handlangari niður í Slipp og þá fékk maður að sjá alvöru karla eins og t.d. Jón (Björnsson) á Nesi vinna við nýsmíði og viðgerðir.
Þá fyrst áttaði maður sig á því, hversu flókið bátasmíða ferlið er í rauninni.
Annars á ég mér rétt eins og margir aðrir einnig minningar úr barnæsku, þar sem maður hékk heilu dagana kringum Slippinn og horfði t.d. á kafara hreinsa grjót og sand úr dráttabrautarsporinu, áður en bátar og skip voru dregin á land.

Sjá meira hér og margar myndir frá t.d. svæðinu kringum Hafnarbryggjuna og Slippstöðina:
Horfnar bryggjur – brakkar – síldarplön o.fl. 45 myndir
Þegar ég var að fletta mig í gegnum ofannefnda langa lista yfir Siglfirska bátasmiði, virðist mér að margir hafi haft bátasmíði sem hobbí eða aukavinnu og bátar af ýmsum stærðum og gerðum voru smíðaðir út um allan bæ.
Ég dregst síðan ósjálfrátt inn í ljúfar barnæskuminningar og leiki á svæðinu fyrir neðan Hafnargötu bakkann, en í fjörunni norðan við „Svarta skúrinn“ voru bátar oft sjósettir og þar gat maður einnig oft rekist á alvöru skipasmiði, eins og t.d. Konna Konn og Sigga Konn og síðast en ekki síst, á hin afkastamikla bátasmið, Stjána á Eyri, sem var með aðstöðu í „Beininu“ og einnig í skemmu bak við Söltunarstöð Ísfirðinga.
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.


Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson

Stjáni á Eyri var skemmtilegur karl, lítill og snaggaralegur, virkur í bæjarmálefnum í áratugi sem góður alvöru krati. Minnist þess að þegar maður heimsótti hann í bátasmíðastöðina í Ísfirðingabrakkanum til þess að betla af honum trébúta í kæjakasmíði og kofa, hvað mér fannst alltaf vera góð lykt þarna inni í skemmunni.
Ljúf blanda af furu, eik og tjörulykt, er mjög svo eftirminnileg bátasmíðalykt.
Bátasmiðurinn Stjáni á Eyri
Á skipasmíða heimildasíður Árna B Árnasonar, segir hann eftirfarandi um:
Kristján Sigurðsson, Siglufirði. ( 1902 – 1999 )

„Kristján Sigurðsson var húsasmiður að mennt en var mikilvirkur í bátasmíðum á Siglufirði.
Hann nam trésmíði hjá Karli Sturlaugssyni og stundaði þá iðn ásamt mörgum fleiri verkefnum.
Hann var giftur Ólöfu Gísladóttur og ólu þau upp eina fósturdóttur. Kristján var planformaður Söltunarfélags Ísfirðinga í hart nær fjörutíu ár.
Stjáni á Eyrinni, sem hann var oftast kallaður, byggði báta sína í síldarbragga sem kallaður var Ísfirðingabraggi og stóð á flötinni sunnan húss þess sem nú hýsir Síldarminjasafnið á Siglufirði. Sjálft smíðaverkstæði Kristjáns var á neðstu hæð þriggja hæða húss sem kallað var Beinið.
Á annarri og þriðju hæð voru geymdar síldarnætur... Kristján smíðaði fjölmarga hringnótabáta og vann mikið að viðgerð þeirra… Sliskjubraut var fram af verkstæði hans þar sem taka mátti á land minni báta til viðgerða...Með Kristjáni að smíðum og bátaviðgerðum vann lengst af Konráð K. Konráðsson sem jafnframt smíðaði báta í eigin nafni.„
Stjáni var með eindæmum afkastamikill bátasmiður, en hann smíðaði samtals 35 báta á árunum 1953 – 1974. Fyrsti báturinn / trillan, sem hann smíðaði var mér og mínum ættingjum einstaklega kær.
Að lokum:
FREYJA SI – 33, trilluhornið hans afa Péturs Bald
Stutt ágrip frá heimilda heimasíðu Árna, varðandi trilluna Freyju SI -33, sem Stjáni á Eyri smíðaði 1953:
„Stærð 3,17 brl.
Fura og eik. Frambyggður súðbyrðingur. Trilla. Vél 7,00 ha Scandia.
Báturinn var smíðaður fyrir Pétur Baldvinsson og Sigtrygg Flóventsson, Siglufirði sem áttu hann í 25 ár. Nokkuð öruggar heimildir eru fyrir því að Freyja SI-33 sé fyrsta trillan sem Kristján smíðaði.
Frá árinu 1978 hét báturinn Brynja SI-36 og var í eigu Guðbrands Ólafssonar á Siglufirði. Báturinn hét enn Brynja SI-36 þegar hann var dæmdur ónýtur og felldur af skipaskrá 15. nóv. 1987. Heimild um smíði og fyrstu vél: Siglingamálastofnun. Njörður Jóhannsson Siglufirði.„
Hér getur pistlahöfundur sjálfur, sem var gutta háseti á Freyju, lagt til eftirfarandi viðbóta upplýsingar:
Jónas Tryggvason góðvinur afa, var líklega einnig um tíma meðeigandi og að Freyja fékk þetta litla frambyggða stýrishús kringum 1970. Tengdasynir Péturs Bald, þeir Bjarni Þorgeirsson og Björgvin Jónsson o.fl. hjálpuðu afa að smíða þetta krúttlega stýrishús og setja þar inn lítinn legubekk og litla olíu eldavél.

Þakklætis kveðjur til Siggu Sæm, fyrir að ýta mér úr vör í þessi greinaskrif og einnig fá eftirlifandi ættingjar Árna B Árnasonar sem og SjóEy félagið miklar þakkir fyrir að halda á lofti skipasmíðasögu Siglufjarðar og Íslands. Svo megum við alls ekki gleyma að þakka Steingrími Kristins, fyrir að taka allrar þessar myndir, sem gera þessa og aðrar sögur svo lifandi í minningum okkar um liðna tíð.
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Líklega Steingrímur Kristinsson
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.



