Á morgun, laugardaginn 27. september kl. 15 verða opnaðar fimm nýjar sýningar í Listasafninu á Akureyri. Þar á meðal er sýningin Öguð óreiða eftir Bergþór Morthens, en jafnframt verða opnuð verk eftir Óla G. Jóhannsson, Barbaru Long, Sigurd Ólason og sýndarveruleikainnsetningin Femina Fabula.
Á opnuninni verður boðið upp á listamannaspjall með Bergþóri Morthens og Barbaru Long, auk kynningar Kristjáns Ingimarssonar á Femina Fabula.
Í verkum Bergþórs Morthens verða mörkin á milli málverks og skúlptúrs óljós. Hann vinnur með sömu efni og liti í báðum miðlum og leikur sér að því að brjóta upp skilin milli innra og ytra yfirborðs. Útkoman er myndheimur sem flöktir á milli myndrænnar túlkunar og hins óhlutlæga, þar sem grótesk form afhjúpa jafnframt og hylja.
Verkin fjalla á myndrænan hátt um ofgnótt og ofhlæði samtímans, þar sem ferlið sjálft endurspeglar bæði uppbyggingu og niðurrif, sköpun og eyðileggingu. Með þessum hætti vísa þau í söguna, dægurmenningu, pólitík og listasögu, auk þess sem hið undarlega og gróteska fær áberandi sess.
Bergþór lauk námi við Myndlistaskólann á Akureyri árið 2004 og meistaragráðu í myndlist við Valand háskólann í Gautaborg árið 2015. Verk hans hafa verið sýnd víða, bæði á Íslandi og erlendis, meðal annars í Svíþjóð, Danmörku, Grikklandi og Rúmeníu.
Sýningin Öguð óreiða verður opin til 18. janúar 2026 í Listasafninu á Akureyri.
