Sjö ára strákar vakna yfirleitt á undan sólinni norður undir heimskautsbaug. Hún er sein á fætur í þröngum firði og maður var kominn út á forugt sundstrætið áður en hún gyllti eggjar Eyrarfjallsins. Lágstemmdur kliður fugla og fjörubúa fyllti loftið og örlítið kul lagði inn fjörðinn þegar kalda loftið byrjaði að hitna, leita upp og draga kulið inn úr djúpinu. Það hét innlögn.
Á svona hæglátum júnímorgni gaf ég mér góðan tíma til að vakna; sveigði fram ristarnar og glennti í sundur tærnar. (Nokkuð, sem ég get ekki í dag án þess að fá heiftarlegan sinadrátt.) Ég teygði úlnliðina til lofts og rumdi sætlega. Líktist meira kúinu í æðarfuglinum en í alvöru ljóni eins og nú. Svo lá ég eilítið lengur og hlustaði á vélarhljóð bátanna sem sigldu til fiskjar. Ég þekkti þá alla af hljóðunum. Þarna fór Ásdísin og söng eins og bliki; Kveldúlfur hans pabba tónaði eins og munkur; Guðnýin svolítið stærri og dimmraddaðri; heldur ókvenleg.
Ég var farinn að fella tennur. Stórar og vígalegar framtennur boðuðu komu sína þar sem litlu tönnsurnar höfðu áður setið. Undir tungu kenndi maður þeirra eins og lítilla sagarblaða. Barnatennurnar voru undir kodda. Mér hafði verið ráðlagt að leggja þær þar og óska mér einhvers. Þá óskaði maður oftast einhvers fyrir okkur öll, systkini mín, pabba og mömmu. Að pabbi þyrfti ekki alltaf að vera á sjó. Að við eignuðumst bíl; gætum farið í ferðalag saman. Það rættist jú einhverjum árum seinna en ekki beint í þeirri röð.
Ég hafði ekki minnstu blygðun yfir tannleysinu og brosti eftir sem áður eins og sólargeisli; hló eins og vellandi spói. Þá kom hláturinn innanað svo ekkert hélt aftur af honum. Hann var bak við augun, undir þindinni, í handakrikunum, hálsakotinu og spékoppunum. Þá hló maður allur þegar maður hló. Það eina, sem var meinlegt við þetta var að segja ess. Það bögglaðist út með flauti og blístrum og einhvervegin þvældist þornið alltaf með. Þegar ég leit út eftir götunni, sá ég að Össi og Sævar voru komnir út; Öþþi og Þævað. Ekki nógu gott. Ég taldi betra að finna mér eitthvað annað til dundurs en að blístra nöfnin þeirra daginn út og inn.
Það hitnaði fljótt á milli fjallanna þegar innlögnin lét sig og sólin gægðist yfir brúnir Ernis. Eimurinn steig upp af malargötunum og fiskilykt fyllti loftið. Slíkt lofaði góðum degi. Allt kallaði á útilegu í slíku veðri. Hefja sig til flugs og kúra ekki á sama steini. Frjálsir barnsandar kröfðust þess. Mamma smurði fyrir mig nesti. Brauð með osti og eplasneið, sem hún setti í brúnan bréfpoka. Skærgulur Assis brúsi með rauðu loki, sem nota mátti sem mál. Assis var appelsínusafi frá Ísrael. Í þá daga hét djúsinn Assis. Ekki gott að bera það fram og ég þurfti þess ekki heldur. Mamma las hugsanir og útbjó alltaf það sem mig langaði mest í. Ég ætlaði í skógarferð inn í Tunguskóg á litla hjólinu mínu. Tunguskógur var inni í fjarðarbotni. Hann stóð varla undir nafni á heimsvísu; gisið kjarrlendi og lyngbrekkur með einstaka útlensku grenitré og birkihríslu á stangli.
Mamma bleytti höndina undir vatni og reyndi að klappa niður úfinn kollinn á mér. Ég var svolítið rafmagnaður á morgnanna, með óstrýláta brúska úr tveimur hvirflum á hnakkanum. Dralonpeysan mín magnaði þetta fram. Þegar ég fór í hana þá gnast hún og gneistaði af stöðurafmagni. Hún var fallega mynstruð og litfögur úr nýmóðins gerviefni, sem var svo rafmagnað að pappírsarkir loddu við mann; kisa varð eins og flöskubursti ef ég mundaðist við að klappa henni og eldglæringar hrukku af öllum snerlum, sem ég snerti. Svo jafnaði þetta sig. Ég fékk koss á ennið hjá mömmu, svo hjólaði ég af stað með nestið á bögglaberanum.
Inni í skógi ríkti kappræða skógarþrastanna. Gróðurilmurinn fyllti loftið, flugurnar suðuðu og lognið var algert. Ég var heitur og þvalur á skrokkinn eftir hjólreiðatúrinn. Loftið gældi hlýtt við vangana. Ég lagði hjólið í kjarrið, batt peysuna mína um mittið og gekk að Tungudalsá, sem niðaði í fjarska. Peysan dró náttúrlega til sín allt lauslegt úr umhverfinu og breyttist í hálfgert strápils á augabragði. Hárið stóð aftur á endum. Ég klofaði yfir gaddavírsgirðingar og kúldraðist í þurru grasinu. Áin var kristaltær svo sjá mátti hvern stein og slýutaum á botninum. Ég kraup niður og fékk mér svalandi sopa, bleytti hausinn til að hemja hárið; gekk svo um bakkann og trampaði niður fæti til að fæla bleikjurnar fram. Allt iðaði af lífi. Ég var bergnuminn yfir þessari stórkostlegu skrautsýningu, sem átti sér svo fullkominn samhljóm í gleðisöng hjartans. Allt fyrir mig.
Ég hafði í fyrstu hugsað mér að finna mér fallega laut til að borða nestið mitt í, en var of uppnuminn til að setjast niður. Handan árinnar reis Hnífafjall. Það var stórt og stöllótt fjall í augum stráks sem hafði loðna rassa, og þaðan af verra, í augnhæð þegar hann skrapp í sund. Hvað skildi vera á toppnum? Skyldi maður sjá til útlanda? Ég fór úr skóm og sokkum og bretti upp skálmarnar. Vatnið var kalt. Nýfrelsaður snjór ofan af heiðum sem gusaðist upp mjónulega leggina. Steinarnir í árbotninum voru sleipir og slímugir en volgir viðkomu. Á hinum bakkanum límdust strá og mosi við tásurnar, svo ég sleppti því að fara í sokkana aftur. Hvíta og svarta strigaskóna hafði mamma nýverið gefið mér, svo ég tiplaði úr blautum mosanum á bakkanum áður en ég fór í þá aftur. Ekki vildi ég særa hana með því að drulla þá út.
Hlíðin blasti við eins og hún vildi hvolfast yfir mig. Ég hélt fullhuga og glaður á brattann. Tjaldurinn tísti, spóinn vall graut og lóan og hrossagaukurinn sungu samsöng. Flugur suðuðu, og mosinn fjaðraði eins og þykkt teppi undir fæti. Ég söng með mér lag, sem ég hafði lært í skólasöng. Það átti bara svo vel við þarna og kom áreynslulaust eins og andadrátturinn.
Vorvindar glaðir,
glettnir og hraðir,
geysast um lundinn rétt eins og börn.
Lækirnir skoppa,
hjala og hoppa,
hvíld er þeim nóg í sæ eða tjörn.
Hjartað mitt litla, hlustaðu á;
hóar nú smalinn brúninni frá.
Fossbúinn kveður,
kætir og gleður,
frjálst er í fjallasal.
Ég þreyttist þó smátt og smátt á göngunni. Í hvert sinn sem ég taldi mig vera að ná toppnum, þá tók nýr hjalli við. Rétt eins og í lífinu sjálfu. Hvassgrýtt urð tók við af mosanum og gróðurinn varð gisnari. Ég var svolítið fatlaður eftir slys í bernsku, með snúinn og mislangan fót, fatt og hlykkjótt bak. Þegar sársaukinn í lærum og mjóbaki varð slæmur þá stoppaði ég og kastaði mæðinni; leyfði honum að læðast upp hrygginn og í hnakkagrópina uns hann leið eins og reykur upp úr hvirflinum. Það var þægileg tilfinning. Ég einsetti mér að líta ekki til baka fyrr en ég næði tindinum og hafði augun varla af brúninni. Mér fannst ég léttari og sælli, eftir því sem ofar dró. Þetta var mín raun; minn sigur.
Loks var tindinum náð. Svalur andvari kældi svitann við hársvörðinn. Líkaminn var eins og miðstöðvarketill; heitur og rakur. Roði í kinnum og hvörmum kitlaði eins og milljón litlar nálar og hjartað dansaði taktfast í brjóstinu. Móðurinn svall í hverri æð. Ég fann fyrir mér öllum frá hvirfli niður í tær og fannst ég geta flogið; sigrað allt. Þarna blasti fjörðurinn minn við. Eyrarfjall og Ernir stóðu á haus í spegilsléttum sjónum og breiddu faðm sinn mót bláleitri Snæfjallaströnd. Fegurðin var ólýsanleg. Ég sá yfir allan heiminn og handan hans. Heiðblár himinninn skartaði laufléttum skýjaslæðum; léttar pensilstrokur, sem dregnar voru frá norðurskautinu og yfir höfuð mér. Allt fyrir mig.
Ég var alsæll og lagðist á bakið. Hitinn streymdi frá brjóstinu og ég lygndi aftur augunum með bros á vör. Það var eins og rafmagnaður hjúpur umlykti mig. Mér fannst sem ég sytraði út í lyngbreiðuna eins og vökvi þar til ég samlagaðist sverðinum. Eins og tíbrá leið verund mín saman við loftið og ég fann ekki lengur fyrir líkamanum; varð að agnarsmáum ljóspunkti milli augnanna og leystist svo algerlega upp; hætti að vera til um leið og ég varð að öllu sem var, eins og súldardropi sem samlagast hafinu; missir form og lögun en verður hafið sjálft á sömu stundu. Allt en samt ekki neitt.
Þetta virtist vara í eilífð en samt eitt augnablik. Vitundin smeygði sér inn á eldingarhraða. Ég hrökk upp og var brugðið í fyrstu. Jú ég var þarna enn. Hendurnar, puttarnir, fæturnir. Var ég lengi í burtu? Þetta var eins og draumur og ég fann mikla sælu blossa upp innan í mér. Ég hafði uppgötvað einhvern leyndardóm, sem engin leið er að endursegja; vissi allt sem þurfti að vita. Ég reis á fætur og fór úr bolnum. Það var svo heitt. Svo flugu buxurnar og skórnir og loks nærurnar. Þarna stóð ég kviknakinn og baðaði út örmunum; lét goluna leika um mig allan, bakið, magann, hálsinn, rassaling og tippaling. Svo hljóp ég í hringi og steypti stömpum eins og kálfur að vori. “Júhúúúú!”
Ég brosti mínu tanngisna brosi, svo mig verkjaði í spékoppana. Brosti með öllu sem ég var. Og ég var allt. Allt var ég. Ef Kaífas æðstiprestur hefði staðið þarna í öllum sínum skrúðklæðum, hefði hann bliknað í samanburði við meistaraverkið mig og ef hann hefði spurt með vanþóknun hvort ég væri sonur Guðs, þá hefði ég hiklaust svarað já og horft í augu hans með höfugt bros þess sem höndlað hefur viskuna.
Ég breiddi undir mig peysuna og settist við að borða nestið mitt. Móðurást í hverjum bita. Það kímdi í mér. Ef að mamma sæi mig núna. Ég lagðist á magann og leyfði sólinni að kyssa mig á bakið og rassinn. Tíminn hafði brugðið sér frá eitthvert sem hans var frekar þörf. Hér hafði hann ekkert erindi. Flugurnar suðuðu og ilmurinn af blóðbergi, lyngi, blágresi og rjúpnalaufi fyllti vit mín. Puntstráin kitluðu nebbann.
Hér var eilífðin. Hér var ég, berrassaður strákur á fjalli, sextíuogsex gráðum norður og tuttuguogtveim vestur, við fegursta fjörð í heimi á vogskorinni eyju langt í norðurhafi. Eyju með glitrandi jöklum, djúpgrænum mosabreiðum og svörtum söndum. Eyju á tærbláum hnetti með snjóhvítum skýhvirflum. Blárri stjörnu sem sindraði á kvöldhimni hinum meginn í himingeimnum og speglaðist í augum dreymandi strákpjakks, sem kannski var líka berrassaður og sæll eins og ég.