Stofnun ársins – Besta niðurstaða SAk frá upphafi

Stofnun ársins er viðamikil starfsumhverfiskönnun sem hefur það að markmiði að styrkja starfsumhverfi í opinberri þjónustu. Þar er metið bæði hvað gengur vel og hvaða áskoranir eru til staðar, sem hægt er að nýta til umbóta og þróunar.

Jákvæð þróun í öllum þáttum

Það er sérstaklega ánægjulegt að niðurstöður ársins 2025 sýna jákvæða þróun í öllum þeim þáttum sem mældir eru. Þessir þættir eru: stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki vinnu, ímynd stofnunar, sjálfstæði í starfi, ánægja og stolt, og jafnrétti. Mestar framfarir má sjá í stjórnun annars vegar og ánægju og stolti hins vegar. Hins vegar mælast launakjör og vinnuskilyrði lægst. Þegar borinn er saman árangur SAk við aðrar stofnanir innan sama flokks koma fram tveir helstu veikleikar: launakjör og sveigjanleiki vinnu.

Við viljum gera enn betur – og við vitum að góðir hlutir gerast hægt

Við hjá SAk höfum metnað til að bæta okkur enn frekar á öllum sviðum. Stundum getur virst sem þróunin sé hæg og áskoranirnar óteljandi, en slíkar niðurstöður minna okkur á mikilvægi þess að staldra við og fagna árangrinum. Við eigum að vera stolt af þeirri vinnu sem hefur skilað bestu niðurstöðum SAk frá upphafi – en jafnframt megum við ekki missa sjónar á því að við erum enn í 36. sæti af 46 stofnunum með 90 eða fleiri starfsmenn og viljum gera enn betur.

Það sem skiptir mestu máli er að á bak við þessar framfarir stendur starfsfólkið okkar. Í krefjandi starfsumhverfi heilbrigðiskerfisins tekst starfsfólkið á við fjölbreytt og oft flókin verkefni af mikilli fagmennsku og elju.

Þrátt fyrir mikið álag hafa mörg jákvæð skref verið stigin á síðasta ári til framfara fyrir SAk. Við höfum laðað að okkur nýtt starfsfólk, innleitt velferðartorg og aukið markvissa upplýsingagjöf til starfsfólks og stjórnenda. Allir þessir þættir spila saman í að bæta og stuðla að heilbrigðu og góðu starfsumhverfi.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki fyrir þeirra framlag. Árangurinn í könnuninni er vitnisburður um ykkar elju og hollustu. Við höldum áfram, saman, með það að markmiði að nýta enn betur niðurstöður slíkra kannana til umbóta svo gera megi SAk að enn betri vinnustað.

Forsíðumynd: Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri SAk

Mynd/SAk