Billinn, við Lækjargötuna, sem hér áður fyrr formlega hét Knattborðsstofa Siglufjarðar, var merkileg stofnun og margir lesendur kannast örugglega við að hafa átt sér þarna sitt “annað heimili” og eytt þar óteljandi klukkutímum með góðum vinum í að æfa sig í biljard spili.
ATH. orðið Biljard, er einhverskonar safnorð varðandi knattborðsspil með kúlum og kjuðum og skiptist í þrár aðalgreinar sem á ensku heita : Snooker, Carambole og Pool og munurinn liggur aðallega í stærðinni á borðinu og götunum, kúlunum og þeim fjölda sem á að skjóta niður í götin. Carambole er þó upprunalega og oftast spilað á biljardborði sem hefur enginn göt.

Í þessari myndskreyttu frásögn höldum við okkur við minningar og myndir um snóker og karambúl spil á tveimur biljardborðum sem til voru á gamla góða Billanum heima á Sigló. Pistlahöfundur hefur lengi vel haft í huga að taka saman grein um Billann, en verið í miklum vandræðum með að finna passandi ljósmyndir til að gefa sögunni meira líf.
Nýlega barst mér þó skemmtileg sending gegnum Messenger spjall við Guðmund Jón Albertsson og bauðst hann til að skanna inn um 20 myndir sem hann hafði erft eftir frænda sinn Sigurð Guðmundsson. “Siggi Múrari” heitinn, tók þessar myndir á Billanum, líklega á tímabilinu 1974-76. Nokkrar af myndunum gætu samt verið teknar í kringum 1980.
Á myndunum sjáum við t.d. marga mér eldri Billa fastagesti og snóker spilara fyrirmyndir eins og t.d. Magnús heitinn Viðarsson. Þetta eru allt saman svakalega flottir og velkæddir Billa töffarar.
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.

BILJARDINN ER MIKIÐ BÖL!
Knattborðsleikur virðist eiga sér langa sögu á Siglufirði, en erfitt er að finna áráðanlegar heimildir hvaða ár fyrsta biljarðborðið kemur til Sigló. Þó er þess t.d. getið í gamalli KÁESS blaðagrein frá 1939 að til sé sögufræg knattborðsstofa í þessu húsi við Ráðhústorg 1.

Hér kemur stutt ágrip úr KS blaðinu (Knattspyrnufélag Siglufjarðar) frá 1939….
ATH. þessi texti hér fyrir neðan sem áhyggjufullur KS-ingur skrifar, minnir nokkuð mikið á áhyggjur nútímafólks varðandi tölvuleikjafíkn barna og unglinga og augljóst er að knattborðsleikur er ekki talinn mannsæmandi íþrótt. Ekki virðist mér að þessi “nöldur grein” hafi haft mikil áhrif á ungviði Siglufjarðar, því að á Billa myndum Sigga Múrara sem birtast ykkur hér neðar, sjáum við að mestu leyti persónur sem voru þekktir fyrir að vera eitilharðir KÁESS ingar.
“… Það er sorglegt að mönnum eftirlitslítið líðast að gera sér það að atvinnu sinni að reka siðspillingarstarfsemi í bænum og meðal bæjarbúa…”
“… Það er skammarlegt, að nokkrir Siglfirðingar hafa naut af því að gjörspilla sjálfum sér, andlega og líkamlega með taugaæsingi og óreglu, sem alltaf sveima kringum kjuða og kúlur hvar í veröldinni sem er. Enda má þekkja úr og það í fjarlægð, þá sem hafa það að atvinnu að láta trekkja sig upp. Þá sem liggja kengbognir yfir kjuðanum allan daginn og gefa sér ekki einu sinni tíma til að borða, sem og þá sem eru lagstir andlega til sinnar hinztu hvíldar, andlega komnir undir græna torfu…”
“… Það er krafa íþróttamanna að þessu tóttabroti andlegrar niðurlægingar verði lokað með lögregluvaldi…”
“… Bærinn ætti líka að sjá sóma sinn í að fólk ekki viljandi hrörni og eldist fyrir tíman, sem er óhjákvæmileg afleiðing sífelds taugaóstyrks og vinsvika, en þess eru því miður nokkur dæmi…”

Dæmi:
“… Auralítill unglingur sem allt sitt hefir misst í billjardinn, hefir selt utan af sér fötin til þess eins að að geta spilað, en langar til þess að halda áfram en hefir ekki peninga. Honum dettur þá í hug hvað amerísku barnaræningjarnir gera til að afla sér fjár.
Hann tók tvær kúlur þegar tækifæri gafst og fer. Hann kemur aftur eftir dálitla stund og segir yfirmanni stofnunarinnar að hann viti um kúlurnar, en auðvitað segir hann það ekki nema að hann fái að spila útá 50 krónur. Yfirmaðurinn býður til samkomulags 5 krónur og tilboðið samþykkt. Drengurinn fer heim og sækir kúlurnar og heldur áfram að spila…”
“… Margt fleira hef ég heyrt, sem ef til vill á eftir að fréttast ef þetta nægir ekki… “
K.S – ingur. Heimildir: (K.S. blaðið 4 tbl. 6 apríl. 1939.
Sjá meira hér varðandi umhverfið við Ráðhústorg:
RáðHÚS- TORGIÐ OKKAR FYRR OG NÚ… 1 hluti. 60 MYNDA-SYRPUSAGA
Pistlahöfundi hefur ekki tekist að finna áráðanlegar heimildir, varðandi aðrar staðsetningar á knattborðsstofum heima á Sigló, en mér biljardsögu fróðari menn, mega gjarna senda mér upplýsingar ef þeir vita meira um þessa sögu.

Að hanga í Billahurðinni…
..Það var nú reyndar þannig að það voru mjög svo strangar og harðar reglur og aldurstakmörk á Billanum, líklega til að forðast svona ofannefndar öfgakenndar lýsingar og áhyggjur fullorðina yfir því sem þarna fór fram.
Í rauninni má segja að Billinn var einhverskonar félagsheimili fyrir börn og unglingar á aldrinum 15 til 30 ára. Fram að 15 ára aldri hékk maður í sjálfri sjoppunni og í tvískiptri hurð, sem hægt var að opna til helminga og þá gat maður horft með tilhlökkun inn í þennan heilaga biljard heim.
Börn undir 15, gátu reyndar æft sig aðeins í að höndla kjuða með því að spila Bob niðri í Æskó við Vetrarbrautina.

Mínar eigin Billaminningar…
… byrja eftir að skóladegi líkur, strax eftir kl. 16.00, 20 janúar 1977, en þá varð ég loksins, loksins 15 ára og mátti þá byrja að æfa mig í að spila alvöru biljard. Eigendur voru þá Guðmundur Davíðsson og Lilja Guðmundsdóttir og mér virðist að það sé hefð fyrir að Billaeigendur búi samtímis í húsinu. Fyrri eigendur voru Gunnar Jóhannsson og Valey eiginkona hans og bjuggu þau einnig á efri hæð Knattborðsstofu Siglufjarðar. Þar á undan minnir mig, var í þessu húsi, rekið bakarí og knattborðsstofa og svo þar á eftir var einnig Pétur hafnarvörður og fjölskylda með þvottahús á sama stað og knattborðsstofu sem hliðar búskap.
Í þessari frásögn höldum við okkur í minningum og myndum við tímabilið þar sem Gummi Davíðs og Lilja eru eigendur og óhætt er að segja að þau hjónin hafi lagt dágóðan tíma í ala mig og aðra krakka upp á sínum tíma, en Gumma hitti maður jú einnig sem þjálfara á fótboltaæfingum hjá KS.

Billinn er stórt og mikið hús með áföstum bakhúsum, það var frekar þöngt setið í sjoppuhlutanum, en mun stærra rými í sjálfum billjardstofu hlutanum. Strax innan við tvískiptu hurðina var 1/2 snókerborð, sem sagt ekki Pool borð og var það mest notað af okkur yngri strákum og stelpum, sem og forláta 10 krónu spilakassi sem var þar í sama horni.
Stóra snókerborðið var í rauninni að hluta til staðsett í eigin herbergi í einu af þessum áföstu bakhúsum og þegar maður var nýbyrjandi var manni helst ekki sleppt inn í þetta heilaga snókerherbergi. Nei, maður þurfti að æfa sig vel og vandlega fyrst á litla borðinu og fá einhverskonar trúnaðar “Greencard” til að fá að spreyta sig á þessu stóra og flotta snókerborði.

Að vera í áskrift á Billanum…
… þótti manni bara vera, nokkuð flott sem 15 ára töffara, sem ferðaðist þangað daglega úr suðurbænum á SS 50 cc Hondu skellinöðru. Skólastarfið og allskyns íþróttaæfingar, ásamt aukavinnu í útskipunum og löndun o.fl. var það eina sem dró mig frá Billanum.
Á föstudögum sótti maður launaumslagið og síðan var skyldumæting á Billann og þá fór oftast um og yfir helmingurinn úr umslaginu í að borga uppsafnaðar skuldir á Billanum. Samlokur, pylsur, malt og appelsín í gleri og einstaka lakkrísrör og svo fór restin í billjardspilatíma.
Minnist þess einnig að Billinn var fyrsta sjoppan í bænum, þar sem maður gat keypt sér nýmóðins örbylgju hamborgara.

Það kom fyrir að mamma hringdi á Billann og þá var maður skömmustulega kallaður í símann og móðir mín minnti mig kannski á að það væri nú reyndar annar dagur jóla, eða eitthvað álíka nauðaómerkilegt og að von var á gestum í matarboð….
Já, maður sleppti sjaldan úr degi, þar sem maður ekki skrapp á þangað, því þarna voru vinir manns og alltaf eitthvað skemmtilegt í gangi.
Í rauninni fannst okkur krökkunum skemmtilegast að spila karambúl á litla borðinu, því það gekk fljótt fyrir sig að spila með aðeins þremur kúlum og auðvelt að t.d skipa í blönduð stráka og stelpu lið. 3 til 4 lið og svo skiptast á að skjóta annað hvert skot.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að þetta afbrigði af karambúl sé sér Siglfirskt fyrirbæri, en þessi leikur var alveg einstaklega hentugur sem æfingarleikur fyrir seinni tíma flókna alvöru snókerleiki. Því þarna var maður að æfa sig í ýmsu sem maður vill alls ekki gera í snóker, þ.e.a.s. að t.d. forhleypa hvítu kúlunni í gat.
Þetta snýst allt saman um að hafa góða stjórn á hvítu kúlunni með allskyns skrúfuðum kjuðaskotum í battana og aðrar kúlur. Persónulega finnst mér þetta vera mjög svo þroskandi spil fyrir ungar manneskjur. Því margt og mikið krefst þess að þú æfir þig í að hugsa spegilvent:
Því oft á tíðum fer skrúfaða hvíta kúlan í öfuga átt eftir að hún skellur í battana og í alvöru snóker með 15 rauðum kúlum vill maður gjarnan reyna að gera snóker á andstæðinginn með því að fela hvítu kúluna á bak við aðrar kúlur.

Ljósmyndari: Sigurður Guðmundsson.
Hver borgar hvað?
Það var stranglega bannað að spila um peninga á Billanum, en auðvitað lögðu sumir eitthvað undir í laumi. Klukkutíma spil kostaði ákveðna summu og oftast skiptu menn þessum kostnaði bróðurlega á milli sín. Það var hins vegar OK að spila um að sá sem tapaði partýinu borgaði gjaldið.
Að leikslokum fór maður fram í sjoppuna og skilaði af sér kúlunum og gaf síðan upp hversu marga leiki við höfðum spilað samanlagt og hversu margir tapleikir voru skráðir á hvern og einn. Guðmundur og Lilja reiknuðu þetta síðan út eftir kúnstarinnar reglum og allir fóru síðan sáttir heim.

Móta myndir Sigga Múrara
Eins og áður hefur verið nefnt þá eru flestar myndirnar frá Sigurði Guðmunds, teknar á ólíkum tímapunktum á árunum 1974-76, en hér sjáum við þátttakendur og verðlaunahafa á ýmsum aldri.
Ath. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.


Mynd 1: Lilja Guðmundsdóttir, Jón Baldvin og Björn Hannessynir.
Mynd 2: Guðmundur Davíðsson og Þórður Möller.

Frá vinstri: Bræðurnir Bjössi og Nonni Baddi, Friðrik Arngrímsson ( Friggi Adda/Maddýar) , Þorsteinn Jóhannsson (Steini jó), Maggi Viðars, Úlfar Guðlaugsson (Úlli Gull) og Benóný Sigurður Þorkelsson (Siggi Benni)
ATH. Smelltu á mynd og hún birtist þér stærri.



Mynd 1: Gummi Daviðs og Rafn Elíasson (Rabbi Heiðu)
Mynd 2: G. Davíðsson og Guðmundur Ragnarsson ( Gummi Ragnars)
Mynd 3: G. Davíðsson og þorsteinn Jóhannsson (Steini Jó)

Frá vinstri: Gunnar Trausti, Nonni Baddi, Steini jó, Maggi Viðars, Gummi Davíðs og Siggi Benni.



Mynd 3: Frá vinstri, Ásgrímur Pétursson, Hörður júlíussson og Úlfar Guðlaugsson.


Mynd 1. Fyrir miðju, Gunnar Aðalbjörnsson.
Pistlahöfundur sendir Guðmundi jóni Albertssyni innilegar þakklætiskveðjur fyrir að skanna inn, þessar skemmtilegu litljósmyndir
Höfundur samantektar:
Jón Ólafur Björgvinsson .
Eftirvinnsla ljósmynda:
Guðmundur J Albertsson og
Jón Ólafur Björgvinsson.
Sjá meira söguefni eftir sama höfund hér:
https://trolli.is/author/nonni/
Forsíðu ljósmynd:
Ljósmyndari: Steingrímur Kristinsson.
Aðrar ljósmyndir eru birtar með leyfi frá eigendum og Ljósmyndasafni Siglufjarðar.
Heimildir:
Vísað er í ýmsar heimildir gegnum vefslóðir í greininni.