Í gær var enn verið að dæla vatni fram hjá fráveitubrunni á Siglufirði.
Í viðtali fréttamanna Trölla við starfmenn frá Hreinsitækni í gær kom fram að þeir voru enn að dæla fram hjá fráveitubrunni sem hafði ekki undan. Að þeirra sögn er dæla í brunninum ónýt, og ekki eru nein sjálfvirk eftirlitskerfi til að gera vart við bilanir í búnaði. Ekki er heldur viðvörunarkerfi til að fylgjast með því hvort brunnarnir yfirfyllast. Töldu þeir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir það tjón sem varð á húsum á eyrinni á Siglufirði nýverið, með því að hafa sjálfvirka viðbótar dælu, eða í það minnsta viðvörunarkerfi til að bregðast fyrr við vatnsmagni sem dælurnar ráða ekki við.

Í fréttatilkynningu frá Fjallabyggð þann 13. ágúst s.l. segir m.a.

Ekki er vitað nákvæmlega hversu mörg hús flæddi inn í, en tilkynnt var til tæknideildar um leka inn í kjallara í þremur húsum á Siglufirði og tvö í Ólafsfirði.

Í 5. lið segir:

Til að draga úr hættu á innrennsli í kjallara húsa var dælt úr brunnum og lögnum í báðum bæjarkjörnum með tveimur slökkviliðsbílum og tveimur sérútbúnum dælubílum ásamt lausum dælum.

Í hádegisfréttum RUV  13. ágúst ( á 5:53 ) segir Ármann Viðar Sigurðsson deildarstjóri tæknideildar að flætt hafi inn í 10 – 12 hús á Siglufirði.

Áðurnefnd fréttatilkynning Fjallabyggðar hefst á:

Magn úrkomu á utanverðum Tröllaskaga var gífurleg[t] undanfarna sólarhringa. Úrkomumagnið var litlu minna en í hamfaraúrkomu sem varð 28. ágúst 2015 en náði yfir lengri tíma.

 

Í fundargerð Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar frá 2017 má sjá að í október 2017 réði fráveitukerfið ekki heldur við aðstæður. Það má því ljóst vera að ekki þarf “gífurlega hamfara úrkomu” til að kerfið ráði ekki við aðstæður.

14. 1710061 – Fráveitukerfi Fjallabyggðar
Á 218. fundi skipulags- og umhverfisnefndar var deildarstjóra tæknideildar falið að skrifa umsögn vegna vatnsveðurs helgarinnar 13. – 14. október sl. [2017] Lögð fram umsögn deildarstjóra dagsett 17. nóvember 2017 ásamt minnisblaði VSÓ Ráðgjafar, dagsett 19. október 2017.

Minnisblað VSÓ Ráðgjafar er ekki aðgengilegt á vef Fjallabyggðar, en þar má hins vegar finna umsögn deildarstjórans.

Umsögn deildarstjóra tæknideildar frá 17.11.2017:
Fjallabyggð hefur unnið að úrbótum á fráveitukerfi bæði Ólafsfjarðar og Siglufjarðar skv. heildaráætlun sem gerð var árið 2000. Unnið er að því að uppfylla lög um fráveitur með tilliti til hreinsunar á skolpi, lengd útrása og fl. Einnig er tilgangur aðgerðanna að draga úr og koma í veg fyrir flóðavandamál sem skapast við stórsteymi þ.e. háa sjávarstöðu.
Reiknað er með að úrbótum verði lokið á árinu 2018. Varðandi flóðavandamál á eyrinni og við Norðurtún þá hefur tekist að halda því í skefjum, en í síðasta vatnsveðri dagana 12 – 14 október þá réði fráveitukerfið ekki við þær aðstæður. Rignt hafði í ca tvær vikur og svo kom hellirigning í þrjá daga. Kom þá í ljós að við þessar aðstæður þá verður að hjálpa til við að koma skolpi út í sjó með dælum. Þetta er eitthvað sem menn höfðu ekki gert sér grein fyrir. Í þessum aðstæðum þá heldur há sjávarstaða á móti skolpinu og þegar skolpið er í svona miklu magni þá hleðst það upp í kerfinu og á endanum er hætta á lekum inn í kjallara eða upp úr niðurföllum á lágpunktum. Nánari útskýringar og upplýsingar um framkvæmdir á fráveitunni er að sjá í minnisblaði sem ég fékk frá VSÓ sem hefur séð um hönnun á fráveitu Fjallabyggðar.

Ármann Viðar Sigurðsson
Deildarstjóri tæknideildar