Um síðustu helgi var Fiskidagurinn mikli haldinn á Dalvík. Lögreglan var með mikinn viðbúnað enda stærsti viðburðurinn umdæmi Lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Lögreglan segir að í heildina megi segja að Fiskidagshelgin hafi farið vel fram, engin alvarleg mál komu upp en mikill erill var þessa helgi.

Mestur fjöldi fólks kom til að hlýða á tónleikana á laugardagskvöldið. Mikill erill var um kvöldið og fram undir morgunn. Ölvun var mikil og þurftu fimm aðilar að gista í fangageymslum sökum ölvunar og óspekta.

Þá var öflugt fíkniefnaeftirlit þessa helgi og meðal annars var lögreglan með tvo fíkniefnahunda við vinnu. Forvarnargildi þeirra var mikið en alls komu upp 13 minniháttar fíkniefnamál.

Umferð um helgina gekk vel og var lögreglan með yfirumsjón á umferðarstýringu þessa helgi.

Geta ber þess að Vegagerðin áætlar að heildarfjöldi einstaklingsheimsókna til Dalvíkur yfir Fiskidagshelgina hafi verið um 25 þúsund manns sem er töluvert færra en síðast liðnar Fiskidagshelgar. Þar hafa eflaust spilað inn í stórtónleikar á höfuðborgarsvæðinu og slæm veðurspá fyrir svæðið.