Bíóið á Siglufirði var lengst af á öldinni sem leið, hornsteinn bæði næstum allrar þeirrar menningar og ómenningar sem bærinn bauð upp á. Fór eftir því hver talaði. Eða ætti ég kannski frekar að segja afþreyingar? Höfum það bara sitt lítið af hvoru.

Þar voru bíósýningar kl. 3, 5, 7, 9 og 11 þegar best lét í landlegunum á síldarárunum, þar var dansað, duflað og drukkið bæði uppi og niðri og svo voru haldnir þar konsertar og kabarettsýningar auk leiksýninga auðvitað. Og svo voru líka reknar þar alls konar verslanir á ýmsum tímum. Allur er reksturinn þar á bæ einhvern vegin með mun einfaldara sniði í dag, risminni og miklu meira döll. (Afsakið slettuna). Eða finnst okkur sem höfum upplifað aðra og öðruvísi tíma þetta bara? Er þetta einhver ímyndunarveiki sem fortíðarþráin og rósrauður bjarmi drauma og langana sem rættust ekki, sem hafa ruglað okkur í ríminu? Nei auðvitað er fullt, fullt að gerast heima á Sigló í dag og bærinn hefur líklega aldrei verið fallegri. Reyndar skal það viðurkennast að það er ekki fegurð hans sem stendur upp úr í minningunni. Það er mannlífið og atorkan, bjartsýnin og áræðnin þar sem ævintýrið varð að veruleika og veruleikinn að ævintýri.
Tóri eða Hinrik Thorarensen sonur hjónanna Odds C. Thorarensen, lyfsala og konu hans, Önnu Clöru Schiöth, fluttist til bæjarins árið 1920 sem ungur læknir. Að sögn Óla sonar hans keypti hann þá strax Siglufjarðar-bíó í Norðurgötunni, en aðrar heimildir segja að hann hafi ekki gert það. En hann byggði og opnaði Nýja-bíó við Aðalgötuna árið 1924.

Hann rak þar bíóbúðina sem var blönduð verslun, keypti Hótel Siglunes sem síðar nefndist Hótel Höfn, rak söluturn efst í Aðalgötunni og annan neðst í sömu götu, svo og skóbúð og veitingastað, einnig lyfjabúð og söltunarstöð sem síðar var kennd við Fúsa Bald, hann hafði 1000 hænur í búi uppi í fjalli, en nokkuð af unghænum uppi á lofti í bíóinu.
Þetta var á tímum þöglu myndanna og eflaust hafa hænsfuglarnir einhvern tíma gefið frá sér hljóð á hádramatískum augnablikum sem hafa fallið misvel að söguþræði myndanna.
Hann rak líka prentsmiðju í áratug, en seldi hana Sigurjóni Sæmundssyni prentara. Tóri var með umboð fyrir Tóbakseinkasölu Ríkisins á árunum 1930-32, og sá þá Kristinn Guðmundsson sem þá var innan við tvítugt um bókhaldið.
Hann byggði sér líka myndarlegt einbýlishús við Lækjargötu sem síðar var kallað Blöndalshúsið.
Bræðurnir Oddur og Ólafur Thorarensen tóku við rekstri bíósins af föður sínum, en síðan aðeins Oddur því Ólafur snéri sér alfarið að verslunarrekstrinum á Tórahorninu.
Um 1950 leigði Fúsi frá Bræðrá húsnæðið þar sem seinna var Bíóbarinn og opnaði þar verslun, en sá rekstur endaði ekki vel, því þar kviknaði í. Það lagði mikinn reyk um húsið og Oddur hafði áhyggjur af kvikmyndafilmum sem voru í filmugeymslunni við sýningarklefann. Áhyggjur Odds voru ekki aðeins til komnar vegna mögulegrar sprengihættu sem þeim vissulega fylgdi, heldur ekkert síður vegna þess að kvikmyndirnar voru fimm, en tryggingarnar tóku aðeins yfir þrjár í senn. Hann fékk Steingrím Kristins (Baddý í bíóinu) sem þá var á unglingsaldri, til að lóðsa mannskap upp og koma filmunum út.

Á þessum tíma var gengið upp í sýningarklefann að norðanverðu úr sundinu milli sýningarsalarins og Valashgerðarinnar hjá Schiöth. Menn úr Slökkviliðinu bundu hann og Helga Sveins saman með stuttri taug og settu súrefnisgrímur á þá áður en þeir lögðu af stað inn í reykjarkófið. Þegar þeir voru komnir ofarlega í stigann kippti Helgi í spottann og vildi snúa við, en Steingrímur streittist á móti og hélt sínu striki. Aftur vildi Helgi snúa við en Steingrímur spyrnti þá við fótum og hálfdró hann á eftir sér.
Þegar upp var komið steinleið yfir Helga en Steingrímur kom filmunum út um gluggann Aðalgötumegin. Við nánari athugun kom í ljós að ástæðan fyrir því að Helgi vildi snúa við var síður en svo einhver gunguskapur, heldur hafði gleymst að opna fyrir súrefnið á grímunni hans. Greiðlega gekk að slökkva eldinn sem reyndist ekki mikill, en reykurinn sem kom frá honum var hins vegar alveg gríðarlegur.

Oddur rak bíóið áratugum saman ásamt Guðrúnu konu sinni og sýndi þar allar helstu stórmyndir sem einhverju máli skiptu. Ef engin mynd var í húsi sem var ekki of mikið bönnuð til að verða sýnd á barnasýningu, var auglýst nokkuð sem bar yfirskriftina “Smámyndir og þættir”. Það var blanda af bútum úr kúrekamyndum, teiknimyndum, gömlum grínsketsum og fleiru þar sem flestir fengu eitthvað við sitt hæfi.

Oddur rak um tíma Bíó Café, vinsælan, reykmettaðan bar á efri hæðinni. En á neðri hæðinni var Bíóbarinn þar sem hann seldi ís sem var landsþekktur vegna góða bragðsins.
Uppskriftin var mikið leyndarmál sem var geymd í Færeyjum, að sögn Odds.

Á Bíóbarnum var oft mikið stuð á síldarárunum sem gaf mestu hasarsenunum í vestrunum vinsælu ekkert eftir.
Slegist með kjafti og klóm, jafnvel dregnir upp hnífar, skallað og spítalavinkir gefnir í allar áttir. Ég man eftir atviki fyrir framan útstillingargluggann á Bíóinu sem var alls ekkert fyndið þá, en virkar einhvern vegin allt öðruvísi í dag. Ég var varla meira en 10 ára gamall polli, á röltinu þarna um gangstéttina. Oddur var að hengja upp auglýsingu um mynd kvöldsins út í glugga og tvær gelgjur þess tíma fylgdust spenntar með. “Gvööööð! Það er danskur texti” andvarpaði önnur. “Og myndin er í lit” skríkti hin. Svo flissuðu þær báðar og ég skynjaði vel þótt ungur væri, að þær ætluðu alveg örugglega að kíkja á myndina fyrst hún var bæði með dönskum texta og í lit. – Og kannski líka aðeins á strákana svona rétt í leiðinni. Samkvæmt mínum útreikningum ættu þær að vera komnar fast að sjötugu í dag blessaðar stúlkurnar.

Steingrímur Kristinsson og fjölskylda kaupir Bíóið árið 1982 og reksturinn verður fjölþættari. Næstu ár á eftir er rekin þar sjoppa, myndbandaleiga, haldnir dansleikir o.fl., auk þess sem Bíó Café er endurvakið á efri hæðinni, en bíósýningar leggjast svo af 1999 vegna breyttra ytri skilyrða.

Tómas Óskarsson og Ásta Oddsdóttir ráku húsið um skeið og létu gera á því gríðarlega miklar endurbætur og breytingar. Næstu rekstraraðilar voru Brynjar Sigurðsson og Guðrún Jónsdóttir, þar á eftir Hulda Alfreðs og Didda Ragnars, síðan tóku við Friðfinnur Hauksson, Sigurbjörg Elíasdóttir, Ægir Bergsson og Hallfríður Hallsdóttir, en Haraldur Björnsson og Ólafía Ingibjörg Sigríður Guðmundsdóttir (Lóa) ráku það til 2016.

Eftirmáli: Í apríl 2018 er Bíóið í eigu Arion Banka og er enginn rekstur í húsinu. Það er spennandi að vita hvað tekur við í þessu rótgróna húsi þar sem þorri Siglfirðinga og nærsveitunga eiga ljúfar minningar frá árunum áður.

Texti: Leó Ólason
Birt með leyfi Steingríms Kristinssonar af síðu hans: SK Ljósmynda og sögusíða