Á yfirlitskorti staðaspár Veðurstofu Íslands kl. 16:00 má sjá sjaldgæfa sjón, heiðskírt um allt land. Bjart og fallegt er í veðri á meirihluta landsins, en það er hæð suðaustur af landinu sem stjórnar veðrinu hjá okkur þessa dagana.
Vindur er því hægur og það léttskýjað, eins og forsíðumyndin sýnir glögglega. Hins vegar er útlit fyrir að lágskýjabakki mjakist inn yfir vesturhluta landsins á morgun, einnig eru líkur á þokulofti við suðaustur- og austurstöndina. Milt í veðri.
Það sem eftir lifir vikunnar verður veður áfram með rólegasta móti, en þó er útlit fyrir að það þykkni upp og kólni á Norður- og Austurlandi. Hér er hlekkur á staðaspá: https://www.vedur.is/vedur/spar/stadaspar/
Mynd/Veðurstofa Íslands