Með bættri tækni og hraðari nettengingum hefur fjarvinnu og fjarnámi vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum. Störf án staðsetningar eru nú í boði hjá ýmsum vinnuveitendum og þykir fýsilegur kostur þar sem því er við komið. Vinnur fólk þá annað hvort heiman að frá sér eða í sérstökum rýmum sem sett eru upp fyrir slíka fjarvinnu svo fólk geti verið í félagsskap annarra þó svo það sé ekki á vinnustaðnum. Hér í Menntaskólanum á Tröllaskaga eru nú nokkur rými þar sem fólk getur komið og unnið sína vinnu utan vinnustaðar og notið í leiðinni félagsskapar við okkar góða starfsfólk segir á vefsíðu MTR..

Um þessar mundir eru tvö rými í notkun. Ólafsfirðingurinn Magnús Sveinsson, nýtir annað þeirra. Magnús er búsettur í Noregi og starfar á starfsstöð fyrirtækisins Swisslog í Osló, en fyrirtækið er með starfsstöðvar víða um heim. Starf hans felst í því að hanna lagerrými fyrir ýmis konar fyrirtæki. Hann er að koma hér annað árið í röð og verður í nokkrar vikur líkt og í fyrra. Finnst honum þetta mjög góður kostur; hefur allt sem hann þarf til að sinna vinnunni, nýtur félagsskaparins og getur ræktað samband sitt við æskustöðvarnar, fjölskyldu og vini.

Hitt rýmið nýtir Anna Lind Björnsdóttir, sem er búsett á Siglufirði. Hún starfar sem verkefnastjóri hjá Samtökum sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, SSNE, og nýtir aðstöðuna hér einn til tvo daga í viku.

Magnús Sveinsson og Anna Lind Björnsdóttir að störfum. Mynd/Gísli Kristinsson

Með færri staðnemum og auknu fjarnámi við skólann hefur losnað um rými í skólahúsnæðinu og var ákveðið að nýta hluta af því undir aðstöðu til fjarvinnu. Þeir sem nýta þessa aðstöðu eru kallaðir Fjarkar hér innanhúss og setja svip sinn á skólabraginn. Veita innsýn í önnur störf og önnur samfélög, nær og fjær, auk þess koma með sérfræðiþekkingu sína inn í skólasamfélagið.