Á 319. sveitarstjórnarfundi sem haldinn var í Dalvíkurbyggð í gær var eftirfarandi bókað:
Sveitarstjórn þakkar Katrínu Sigurjónsdóttur, sveitarstjóra, fyrir ötula vinnu og utanumhald við erfiðar aðstæður, að halda fólki upplýstu og að halda utan um samfélagið.
Í veðurhamförum liðinnar viku gegndi Björgunarsveitin Dalvík lykilhlutverki í viðbragðsaðgerðum. Liðsmenn sveitarinnar stóðu vaktina dag og nótt, leiddu aðgerðir í dölunum og lögðu sig í margvíslega hættu í hjálparstörfum sínum. Þarna eru okkar sérfræðingar sem hafa kunnáttu til að takast á við erfiðar aðstæður og eru vel tækjum búnir. Sálgæsluhlutverk björgunarsveitarmanna er einnig mjög mikilvægur og þakkarverður þáttur í þeirra störfum. Í svona aðstæðum er Björgunarsveitin okkar lykilaðili.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar þakkar Björgunarsveitinni Dalvík af heilum hug fyrir þeirra dýrmæta sjálfboðaliðastarf í þágu samfélagsins.
Sveitarstjórn Dalvíkurbyggðar samþykkir samhljóða með 7 atkvæðum að veita Björgunarsveitinni Dalvík viðbótarstyrk, 3 miljónir króna, vegna dýrmæts og óeigingjarns framlags þeirra til samfélagsins á ögurstundum. Styrkurinn greiðist í desember af fjárhagsáætlun 2019.
Mynd: Björgunarsveitin Dalvík