Listasafn Fjallabyggðar hefur verið gert aðgengilegt almenning með nýrri heimasíðu safnsins.

Einkar áhugavert er að skoða safnið, enda má sjá þar verk margra þekktra listamanna.

Á 700. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar var lagt fram erindi Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, dags. 03.06.2021, þar sem óskað er eftir því við bæjarráð að fá til láns, á sömu kjörum og stofnanir sveitarfélagsins, listaverk í eigu Fjallabyggðar til að hengja upp á skrifstofu embættisins á Siglufirði. Um væri að ræða 6-8 verk.

Bæjarráð samþykkti erindið og felur markaðs- og menningarfulltrúa að gera samning við Sýslumannsembættið um lán á 6- 8 verkum og fyrir það verði greitt eitt lántökugjald skv. reglum eins og það kemur fram í útlánareglum Fjallabyggðar.

Jafnframt lagði bæjarráð til við bæjarstjórn breytingu á útlánareglum Listasafns Fjallabyggðar sem felur það í sér að mögulegt sé að lána stofnunum fleiri en eitt verk með einum samningi og einu lántökugjaldi.

Í safneign Listasafns  Fjallabyggðar eru rúmlega 180 verk eftir um 90 listamenn. Grunnurinn að safninu var lagður þann 18. júní 1980 þegar hjónin Arngrímur Ingimundarson og Bergþóra Jóelsdóttir gáfu Siglufjarðarkaupstað 124 listaverk eftir nokkra af landsins þekktustu listamönnum. Með gjöfinni vildu Arngrímur og Bergþóra sýna Siglfirðingum í verki, þakklæti, fyrir stuðning sem þeir veittu foreldrum Arngríms á erfiðleikatímum eftir að þau brugðu búi í Fljótum vegna heilsubrests Ingimundar og fluttust til Siglufjarðar.
Málverkasafn þeirra hjóna var talið vera eitt vandaðasta og fjölbreyttasta listaverkasafn í einkaeign hér á landi.

Arngrímur var fæddur að Höfn í Austur- Fljótum, 23. nóvember 1912, sonur hjónanna Ingimundar Sigurðssonar og Jóhönnu Arngrímsdóttur. Bergþóra var fædd í Reykjavík 29. október 1913, dóttir hjónanna Jóels Sumarliða Þorleifssonar og Sigríðar Kristjánsdóttur. Arngrímur og Bergþóra giftust og bjuggu í Reykjavík. Þau hjónin keyptu verslunina Vörðuna árið 1958 sem var kunn fyrir sölu barnavagna. Bergþóra lést 25. mars 1995 og Arngrímur 16. apríl 2009.

Í Listasafni Fjallabyggðar er einnig að finna, auk þessara 124 listaverka frá hjónunum Arngrími og Bergþóru, ríflega 50 önnur verk sem keypt hafa verið eða færð sveitarfélaginu að gjöf.

Listasafn Fjallabyggðar komið með nýja vefsíðu

Mynd/ Listasafn Fjallabyggðar