Í gær gaf Ingibjörg Guðrún Jónsdóttir oddviti Betri Fjallabyggðar og fyrrum forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar út yfirlýsingu þess efnis að hún hyggst ekki gefa kost á sér að nýju. Yfirlýsingin er eftirfarandi.

“Nú, þegar kjörtímabilið er senn á enda, langar mig að þakka fyrir mig. Ég hef haft þann heiður að vera bæjarfulltrúi í bæjarstjórn Fjallabyggðar á kjörtímabilinu sem forseti bæjarstjórnar, ásamt því að sitja í ýmsum nefndum og stjórnum.

Það var vissulega áskorun að fara í framboð sem aðkomumanneskja í nýju framboði með lítið bakland en drifkraftur minn var áhuginn á samfélagsmálum og viljinn til að bæta samfélagið. Ég ber mikla virðingu fyrir lýðræðinu og einsetti mér því sem kjörinn fulltrúi að gera mitt besta í störfum mínum fyrir bæjarfélagið og vera trú mínum skoðunum og gildum.

Það var mikið áfall að fara í veikindaleyfi síðasta haust og geta ekki klárað kjörtímabilið en gaf mér jafnframt tækifæri til að endurskoða margt í lífinu. Ég hef ákveðið að gefa ekki kost á mér til frekari starfa fyrir Fjallabyggð og geng sátt og stolt frá þeim störfum og lærdómsríka tíma. Mér er efst í huga þakklæti fyrir það traust sem ég hef fengið að njóta og fyrir það frábæra fólk sem ég hef kynnst og starfað með.

Að lokum óska ég bæjarbúum alls hins besta á komandi misserum”.

Ingibjörg Guðlaug Jónsdóttir