Listasafn Fjallabyggðar fagnar tímamótum nú þegar tæplega 180 listaverk í eigu Fjallabyggðar eru orðin aðgengileg almenningi á nýrri vefsíðu listasafnsins. Slóð á síðuna er hér: Listasafn Fjallabyggðar

Með opnun þessa nýja vefsvæðis hafa listaverkin verið færð úr geymslu safnsins og beint til almennings. Vefsíðan býður upp á mikla möguleika til að fræðast og um leið njóta myndlistar og getur jafnframt verið áhrifamikið tæki í kennslu. Vefurinn auðveldar aðgengi að íslenskri myndlist og er ætlað að auka áhuga á þessum mikilvæga menningararfi þjóðarinnar.

Á síðunni er hægt að nálgast ljósmyndir af verkunum, ásamt upplýsingum um verkin og listamenn. Stærsti hluti þeirra verka sem safnið geymir er eftir íslenska listamenn frá árinu 1940.

Listaverkasafn Fjallabyggðar er varðveitt í Ráðhúsi Fjallabyggðar á Siglufirði,  Gránugötu 24 og er safnið eingöngu aðgengilegt á vefnum. Sýningar úr safninu verða auglýstar á heimasíðu safnsins og Fjallabyggðar hverju sinni.

Í  safneign Listasafns  Fjallabyggðar eru rúmlega 180 verk eftir um 90 listamenn. Grunnurinn að safninu var lagður þann 18. júní 1980 þegar hjónin Arngrímur Ingimundarson og Bergþóra Jóelsdóttir gáfu Siglufjarðarkaupstað 124 listaverk eftir nokkra af landsins þekktustu listamönnum. Með gjöfinni vildu Arngrímur og Bergþóra sýna Siglfirðingum í verki, þakklæti, fyrir stuðning sem þeir veittu foreldrum Arngríms á erfiðleikatímum eftir þau brugðu búi í Fljótum vegna heilsubrests Ingimundar og fluttust til Siglufjarðar.
Málverkasafn þeirra hjóna var talið vera eitt vandaðasta og fjölbreyttasta listaverkasafn í einkaeign hér á landi.

Arngrímur var fæddur að Höfn í Austur- Fljótum, 23. nóvember 1912, sonur hjónanna Ingimundar Sigurðssonar og Jóhönnu Arngrímsdóttur. Bergþóra var fædd í Reykjavík 29. október 1913, dóttir hjónanna Jóels Sumarliða Þorleifssonar og Sigríðar Kristjánsdóttur. Arngrímur og Bergþóra giftu sig 1904 og bjuggu í Reykjavík upp frá því. Þau hjónin keyptu verslunina Vörðuna árið 1958 sem var kunn fyrir sölu barnavagna. Bergþóra lést 25. mars 1995 og Arngrímur 16. apríl 2009.

Í Listasafni Fjallabyggðar er einnig að finna, auk þessara 124 listaverka frá hjónunum Arngrími og Bergþóru, ríflega 50 önnur verk sem keypt hafa verið eða færð sveitarfélaginu að gjöf.

Heimasíðan hefur verið í vinnslu og þróun síðastliðin tvö ár. Mikil skráningarvinna liggur að baki verkefninu sem enn er ekki að fullu lokið.

Mynd: af vefsíðu Listasafnsins