Kennarinn, vertinn og listakonan Ida Semey opnar sýningu á Kaffi Klöru í Ólafsfirði í dag, laugardaginn 6. mars í tilefni af alþjóða degi kvenna sem er 8.mars. Sýningin stendur til 20. mars næstkomandi.

Ida Semey segir að Þegar Covid skall á ákvað hún að fara í göngutúra á hverjum degi, taka myndir og skrifa ljóð.

Eftir sumarið byrjaði hún hins vegar að mála. Keypti hún striga og akrílmálningu en átti fyrir helling af penslum sem dóttir hennar hafði skilið eftir á heimilinu.

Hafði hún aldrei velt fyrir sér að mála en ákvað að það sakaði ekki að prófa til að fylla upp í þann aukatíma sem hún hafði til að sinna sínum áhugamálum. Settist hún niður við trönurnar, byrjaði að mála og hefur ekki stoppað síðan.

Myndirnar streyma frá henni, litfagrar í öllum regnbogans litum, mismunandi myndlistarformi og prófar hún sig áfram með allskonar aðferðum.

Að undanförnu hefur Ida verið að mála konur í allskonar formum og litum.

Þegar Ida er að mála gleymir hún stað og stund og nær að kúpla sig frá amstri dagsins. Á sama tíma nýtur hún þess að tvinna saman liti og form, fást við viðfangsefni sem eru á döfinni og það sem hún er að lesa eða horfa á. 

Verkin á sýningunni eru máluð til heiðurs konum í lífi Idu Semey. Konum í fjölskyldunni, konum úr nærsamfélaginu sem eru þátttakendur í hennar daglega lifi og áhrifavaldar í lífsgöngunni á einn eða annan hátt.

Myndirnar endurspegla um leið sögu og réttindi kvenna fyrri alda og frásögn um líf kvenna í Ólafsfirði.