Edda Björk Jónsdóttir sem búsett á Siglufirði hefur sankað að sér mörgum kjólum í gegnum tíðina og skartar þeim jafnframt dags dagslega og við öll tækifæri.

Hún hefur farið óhefðbundnar leiðir í aðdraganda jóla þegar jóladagtölin taka á sig óteljandi myndir, hún fer í kjólana sína, gerir seitt eigið “kjóladagatal” og skrifar persónulega og skemmtilega texta við hverja mynd.

Kjóladagtal Eddu Bjarkar Jónsdóttur 2022

1. desember:
Þeir sem að þekkja mig vita að ég á afskaplega mikið af kjólum. Kjólaáhuginn kviknaði snemma og hefur móðir mín oft talað um á seinni árum að ég sé haldin eins konar kjólablæti, og ég held að það hugtak eigi bara nokkuð vel við mig. Kjólasafnið er slíkt að stundum hef ég orðið að eins konar kjólaleigu og lánað kjóla í alls kyns verkefni, eins og leiksýningar, tónleika og fleira. Kjólarnir eru af öllum stærðum og gerðum: sparilegir, hversdagslegir, nýmóðins, notaðir og allt þar á milli. En nú er desember genginn í garð, og það þýðir bara eitt: Kjóladagatal 2022 hefur göngu sína  (afsakið fyrirfram desember-spammið)

1. desember 2022

2. desember:
Árið 2022 hefur svo sannarlega verið rússíbani og tími mikilla breytinga. Skilnaður, flutningar, fjallgöngur, skila af mér BA-ritgerð og lokaverki frá Listaháskólanum – og allt þar á milli. En árið hefur líka einkennst af svo mikilli gleði og sjálfseflingu, og ég hef svo sannarlega fundið það á þessum tímamótum hvað ég á dásamlegt fólk í kring um mig sem ég er svo óendanlega þakklát fyrir.

2. desember 2022

3. desember:
Ég hef aldrei áður búið ein í eigin íbúð. Það hefur verið dásamleg upplifun, en því hafa óneitanlega fylgt alls kyns áskoranir. Eins og að reyna að finna út úr því hvernig maður tengir ljós við rafmagn. Eins og sést á þessari mynd veit ég alveg hvað ég er að gera.

3. desember 2022

4. desember:
Það er búið að vera mjög gaman að koma mér fyrir í nýju íbúðinni, spá og spekúlera í því hvernig ég vil hafa allt og gíra og græja. Ég ákvað til dæmis að mála eldhúsið hjá mér, sem var heljarinnar verkefni – sérstaklega þar sem ég hef ekki verið þekkt fyrir að vera neitt sérstaklega handlagin, sem betur fer var ég svo heppin að fá foreldrana í smá vinnubúðir til mín að hjálpa mér.

4. desember 2022

5. desember:
Eitt af því sem mér finnst einna leiðinlegast að gera er að para sokka. Hvert fara sokkarnir eiginlega þegar þeir týnast? Hvernig er hægt að enda með 20 staka sokka og finna hvergi hinn?

5. desember 2022

6. desember:

Eitt af því sem ég elska mest við Siglufjörð er þessi mikla nálægð við náttúruna. Fjaran á Siglufirði er ein sú fallegasta, sérstaklega í ljósaskiptunum í dagrenningu í desember.

6. desember 2022

7. desember:
Málningarvinna, stundum þarf bara að dressa sig upp fyrir það tilefni.

7. desember 2022

8. desember:
Það er góð tilfinning þegar maður afrekar það í fyrsta skipti að skipta sjálfur um ljós – má maður þá ekki vera smá stoltur af sjálfum sér?

8. desember 2022

9. desember:
Föstudagur og helgin framundan! Þá getur verið gott að skella sér í síðkjól, henda rúllum í hárið og lakka á sér neglurnar. Ekki verra að hafa smá rauðvín og súkkulaði á kantinum.

9. desember

10. desember:
Árið 2022 er búið að einkennast af mikilli sjálfsvinnu, bæði líkamlega og andlega. Ég eignaðist nýtt áhugamál: fjallgöngur! Ef einhver hefði sagt mér fyrir ári síðan að ég yrði farin að ganga á fjöll, þá hefði ég sagt að sá hinn sami væri eitthvað ruglaður í hausnum en þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt og ég þurfti að taka mér góðan tíma til að byggja upp þol, en vá hvað það hefur gefið mér mikið! Það eru svo mikil forréttindi að búa á þessum fallega stað, umlukin þessum stórbrotnu fjöllum sem gefa mér endalausa orku. Mér líður hvergi betur (og já, ég fór í fjallgöngu í kjól til að taka þessa mynd)

10. desember 2022

11. desember:
Mér finnst ég vinna á afskaplega fallegum vinnustað. Kjólamynd dagsins er tekin í einu uppáhalds húsinu mínu, Bátahúsi Síldarminjasafnsins. Hér stend ég um borð í bátnum Tý, en í kvöld mun Týr einmitt breytast í tónleikasvið þegar jólatónleikar Síldarminjasafnsins verða haldnir hátíðlegir. Þar ætla ég að stíga á svið ásamt góðum vinum og samstarfsfélögum. Tónleikarnir eru kl 20, og það kostar ekkert inn en tekið er við frjálsum framlögum sem renna óskipt til Mæðrastyrksnefndar.

11. desember 2022

12. desember:
Síldarminjasafnið – Njarðarskemma. Einn af kostunum við að vinna á stóru safni er að þar leynast margir skemmtilegir staðir fyrir kjólamyndatöku.

12. desember 2022

13. desember:
Note to self – ganga vel frá jólaseríunum eftir þessi jól svo þær séu ekki allar í flækju á næsta ári.

13. desember 2022

14. desember:
Á að skella sér út að moka snjó? Þá veit ég um rétta dressið fyrir þig!

14. desember 2022

15. desember:
Desember er tími ljóss og friðar, en líka tími skammdegis og stundum smá skammdegisþunglyndis. Frá 15. nóvember til 28. janúar er sólin svo lágt á lofti að hún nær ekki yfir fjöllin á Siglufirði, svo dagarnir eru mjög stuttir hér í nyrsta kaupstað landsins um þessar mundir. En þegar mesta skammdegið er alveg að buga mann má maður alveg láta sig dreyma um sólina og heitari lönd. Ég er samt að elska þennan snjó.

15. desember 2022

16. desember:
Hvað gerir maður við brúðarkjólinn eftir skilnað?

16.desember 2022

17. desember:
Norðurljós. Eitthvað svo ótrúlega magnað fyrirbæri.

17. desember 2022

18. desember:
Ef maður gleymir að kveikja á aðventukertunum alla aðventuna.. Má þá kveikja á þeim öllum í einu seinasta sunnudag í aðventu? Er að spyrja fyrir vin.

18. desember 2022

19. desember:
Suma daga er maður einfaldlega bara hoppandi kátur og hvernig er hægt að vera eitthvað annað þegar maður er staddur í náttúruperlu eins og skógræktinni á Siglufirði? Ótrúlegt en satt er þessi mynd ekki tekin í sumar, heldur í lok nóvember! Það er samt kominn aðeins meiri snjór núna.

19. desember 2022

20. desember:
Jólahreingerningin. Svo óstjórnlega leiðinleg, en aðeins bærilegri í fínum kjól.

20. desember 2022

21. desember:
Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég hefði sómt mér vel sem heimavinnandi húsmóðir á sjötta áratugnum, það voru nefnilega svo fallegir kjólar í tísku þá. En svo man ég hvað mér finnst leiðinlegt að taka til og þrífa og þá er ég bara sátt við að hafa fæðst á 20. Öldinni en Jólabaksturinn er alltaf skemmtilegur hluti af aðventunni, að þessu sinni voru það lakkrístopparnir – sem klikka seint.

21. desember 2022

22. desember:
Það getur verið auðvelt að gleyma sér í stressi í öllu jóla-amstrinu. Reynum samt að muna eftir því að taka okkur smá tíma í að slaka á og njóta líka.

22. desember

23. desember:
Ég er frekar litrík týpa, og það sést einna best á því að fataskápurinn minn er stútfullur af litríkum blómakjólum. En inni á milli leynast líka svartir kjólar, sem fá kannski ekki að líta dagsins ljós eins oft og blómakjólarnir. Þá getur verið gaman að poppa þá aðeins upp með litríkum sokkabuxum. En nú eru jólin handan við hornið, svo það er eins gott að pakka inn þessum jólagjöfum.

24. desember:
Þá er komið að lokum kjóladagatalsins þetta árið. Takk allir sem hafa nennt að fylgjast með vitleysunni og flippinu í mér, ég er að minnsta kosti búin að skemmta mér konunglega í þessu öllu saman. Ég sendi kærleiks jólakveðjur til ykkar allra og ég vona að þið njótið hátíðanna.

Myndir/Edda Björk Jónsdóttir