Klukkan rétt fyrir hálf fjögur í dag barst Neyðarlínu tilkynning um kajakræðara sem var í vandræðum innst í Miðfirði, rétt við ósa Miðfjarðarár við Litla Ós.

Björgunarsveitin Húnar á Hvammstanga var þá boðuð út á hæsta forgangi.

Tveir einstaklingar voru á sitt hvorum kajaknum og hafði annar þeirra fallið af sínum kajak og átti í erfiðleikum með að komast aftur um borð.

Svo vel vildi til að þyrla frá Landhelgsigæslunni var á leið vestur á firði og var stödd rétt norður af Snæfellsnesi þegar óhappið varð og var þegar beint að vettvangi.

Klukkan 16 hífði þyrla einstaklinginn um borð og flutti til lands.

Björgunarbátur björgunarsveitarinnar Húna, Birna, sótti svo hinn kajakræðarann og aðstoðaði í land auk þess að taka í tog kajak þess sem lenti í sjónum.

Ræðarinn sem féll útbyrðis var orðinn nokkuð þrekaður þegar honum var bjargað um borð í þyrluna en að öðru leiti ekki meint af.

Aðgerðum var lokið rétt um 40 mínútum eftir að útkallið barst.

Myndir/Landsbjörg