Ingibjörg R. Helgadóttir sem búsett er á Hvammstanga fór ekki troðnar slóðir við að endurnýta gamlar bækur sem hafa safnast upp á æskuheimilinu hennar í gegnum tíðina.

Hún hefur nú hafið sölu á fígúrum og fleiru sem búnar eru til úr bókum og öðru tilfallandi. Flest allt gamalt dót svo sem jólaskraut, gömul föt, gamlir skartgripir og trjágreinar er nýtt í handverkið.

Allar kellingarnar bera nafn sem vísar til titils bókarinnar sem þær eru gerðar úr eða höfundar bókarinnar.

Sagan á bak við þetta föndur er að á æskuheimili Ingibjargar eru til ótal bækur sem koma víða að. Bæði keyptar og sem gjafir ýmiskonar og eru margar lítið notaðar.

Ingibjörg segir að: “þar sem afskaplega leiðinlegt er að henda bókum þá datt mér í hug að nota þær til einhvers annars en að safna ryki sem bók og útkoman er svona. Til gamans má geta þess að pabbi minn gat aldrei sagt nei við bókasala hvort sem þeir hringdu eða bönkuðu upp á. Alzheimer sjúkdómurinn er mjög algengur í föðurætt minni, því finnst mér við hæfi að Alzheimer samtökin fái að njóta ágóðans af sölunni”.

Ingibjörg hefur opnað facebook sölusíðu undir heitinu Bókasystur.

Myndir María Guðrún og Ingibjörg R. Helgadóttir.