Sólardagurinn á Siglufirði var í gær, miðvikudaginn 28. janúar og reyndist hann annasamur hjá Skíðafélagi Siglufjarðar þegar foreldrar, ömmur, einn afi og góðvinir félagsins komu saman snemma í gærmorgun til að baka pönnukökur í fjáröflunarskyni.

Alls voru bakaðar um 1.400 pönnukökur og hófst undirbúningur klukkan 04:00 að morgni. Afhendingu var lokið um 08:30 og fengu vinnustaðir víðs vegar um bæinn heimsóknir með sólarpönnukökurnar.

Fyrirtækjum í bænum eru færðar þakkir fyrir stuðninginn en ágóði verkefnisins rennur í barna- og unglingastarf SSS.

Skíðafélagið fékk að nýta heimilisfræði skólastofu barnaskólans við baksturinn og lagði þennan fína pönnukökuilm um ganga skólans.

Myndir: af vefsíðu SSS tók Sandra Finnsdóttir