Íbúar við Vatnsnesveg þjóðveg 711 eru orðnir langþreyttir á seinagangi og skilningsleysi stjórnvalda. Þann 10. okt. héldu Vatnsnesingar íbúafund vegna ástandsins, var hann vel sóttur og umræðan málefnaleg.

Þrátt fyrir marg ítrekaðar ábendingar síðustu mánaða er svar vegagerðarinnar og stjórnvalda að lækka hámarkshraðann niður í 30 km á klst. á völdum köflum þar sem hann er nánast ófær.

Í ályktunni kom meðal annars fram “ Foreldrar eru orðnir mjög uggandi um börn sín í skólaakstri á þessum vegi og eru mörg dæmi um að börn kasti upp á leiðinni. Eins eru börnin kvíðin fyrir ferðunum og eru lengi að jafna sig í skóla og heima í lok ferðar og eins hefur ferðatíminn lengst til muna. Þetta er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi og má segja að þetta jaðri við barnaverndarmál“.

Þeim sem um veginn fara er bent á að taka myndir og myndbönd af ástandinu og merkja öll innlegg á samfélagsmiðlum #vegur711

Sjá einnig frétt Trölla.is frá 30. júlí: Vatnsnesvegur stórhættulegur

Ályktun fundarins hefur verið send til samgönguráðherra og annarra sem málið varðar.

 

Lesa má ályktunina í heild sinni hér að neðan.

 

Frá fundi Vatnsnesinga

 

Fundur íbúa við þjóðveg 711 (Vatnsnes og Vesturhóp í Húnaþingi vestra) haldinn 10. október 2018 að Hótel Hvítserk í Vesturhópi.

Tildrög fundar þessa er afleitt ástand á vegi 711 og mættu íbúar frá flestum bæjum við veginn og þess má geta að margt var af ungu fólki sem býr á svæðinu. Miklar umræður urðu á fundinum og eru helstu niðurstöður þessar.

1. Þjóðvegur 711 er í afleitu ástandi enda viðhaldskortur háð honum árum saman og mikil umferð ferðamanna. Selaslóðir á vestanverðu Vatnsnesi og Hvítserkur að austanverðu helstu ferðamannastaðirnir.

2. Ekki hefur verið komið til móts við óskir heimamanna um endurbætur á veginum og fólk orðið afskaplega langþreytt á orðagjálfri ráðamanna sem virðast halda ákaflega fast um budduna og hlusta ekki á fólkið á svæðinu. Þess má geta að nú hefur hámarkshraði vegarins á kafla verið færður niður í 30 km án þess að neinar framkvæmdir eigi sér stað. Hlýtur að vera einsdæmi á Íslandi og sýnir í raun hve alvarlegt ástandið er orðið.

3. Mörg slys hafa orðið á þjóðvegi 711 undanfarin ár. Banaslys varð á veginum árið 2004 þegar ferðamaður missti stjórn á bíl sínum í lausamöl með þeim afleiðingum að hann valt út af veginum.

 

Dekk sem varð fyrir barðinu á Vatnsnesvegi

 

4. Farartæki heimamanna hafa fengið að kenna á ástandi vegarins og viðhaldskostnaður farið upp úr öllu valdi. Sama má segja um bíla þeirra sem sjá um skólaakstur. Benda má á að margir íbúar við þjóðveg 711 sækja vinnu annað til að drýgja tekjur enda sauðfjárræktarsvæði og fáir lifa á því eingöngu.

5. Foreldrar eru orðnir mjög uggandi um börn sín í skólaakstri á þessum vegi og eru mörg dæmi um að börn kasti upp á leiðinni. Eins eru börnin kvíðin fyrir ferðunum og eru lengi að jafna sig í skóla og heima í lok ferðar og eins hefur ferðatíminn lengst til muna. Þetta er að sjálfsögðu algerlega óviðunandi og má segja að þetta jaðri við barnaverndarmál.

6. Íbúar við þjóðveg 711 skora á stjórnvöld að bæta ástand vegarins þannig að ekki hljótist af frekara tjón á farartækjum og fólki. Ljóst er að ábyrgð sjórnvalda er mikil í öllu þessu máli og ekki hægt að víkja sér undan aðgerðum.

7. Foreldar skólabarna á fundinum voru á því að skammt væri í að börn yrðu ekki send í skóla ef ástand vegarins verður ekki bætt verulega. Benda má á að slík aðgerð yrði algerlega á ábyrgð stjórnvalda sem með sinnuleysi sínu myndu þá hafa lögbundna skólagöngu af börnum á svæðinu. Slíkt væri sennilega fáheyrt, ekki síst í ríku samfélagi á 21. öld.

 

Börn í skólaakstri hafa kastað upp við að fara þennan veg í skólabílnum

 

8. Fundurinn skorar á sveitarstjórn Húnaþings vestra að koma til liðs við íbúa við þjóðveg 711 með öllum ráðum og reyna að þrýsta á stjórnvöld að gera betur. Ábyrgð sveitarstjórnar er líka mikil í þessu máli. Eins hvetur fundurinn alla hagsmunaaðila í Húnaþingi vestra (s.s. ferðaþjónustuaðila) til að taka höndum saman með íbúum á Vatnsnesi og Vesturhópi og beita þrýstingi þar sem við á. Þetta sama á við um pólitíska flokka, ekki síst þá sem tilheyra stjórnarmeirihlutanum á Alþingi.

9. Ályktun þessi verður send til þeirra sem við á og eins mun verða haft samband við fjölmiðla til þess að sýna þungann í þessu máli.

10. Að lokum áréttar fundurinn ábyrgð stjórnvalda á þessu ástandi og skorar á þau að láta hendur standa fram úr ermum. Við vitum öll að það eru til peningar til að bæta úr og minnum á að líf og heilsa fólks verður ekki metin til fjár.

Fyrir hönd undirbúningsnefndar

Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir.

 

Myndir: úr einkasöfnum