Bráðum kemur betri tíð með blóm í haga, sæta langa sumardaga, kvað Halldór Laxness í klaustrinu árið 1922, segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur,

Fyrir norðan er enn svalt, en alls ekki kalt. Sólarlítið, en snjóinn tekur nú rólega upp.

Á þriðjudag mjakast hæðarhryggur í háloftunum inn yfir landið úr vestri. Snýst í suðlægan vind þarna uppi á miðvikudag og því fylgir aðstreymi af mildu lofti.

Snjórinn hverfur þá fljótt og bleytan frá honum niður í jarðveginn, gerir það að verkum að fljótt sprettur um leið og hlýnar og sólin lætur sjá sig. Umbreytingin gæti orðið undur skjót.

Blika spáir t.d. +16°C í Varmahlíð á miðvikudag og spárit Veðurstofunnar fyrir Akureyri og Egilsstaði sýna glöggt hve hitinn rís eftir morgundaginn.

En það er fleira á þessu spákorti sem vert er að gefa gaum. NV-stæður vindur og raunveruleg leiðindi sunnan lægðarinnar, þ.e. á Bretlandseyjum og síðar einnig m.a. í Danmörku og í Niðurlöndum. Ekki síður í S-Skandinavíu.

Fylgjast þarf með köldu lægðunum á norðurhjaranum og hvort þær taki á rás í átt til okkar. Sú fyrir vestan Grænlands gæti „verpt eggi“ eða totu af svölu lofti. Henni er spáð yfir S-Grænland og fram hjá okkur. Önnur hæð við St. Lawrence Flóa og lítið fer fyrir, gæti myndað vænlegan hrygg og gert sig gildandi um komandi helgi (og 17. Júní) á okkar slóðum.

Hugsanlega sem Grænlandshæð með ekki svo kaldri N-átt eða að hæðin nái austar og þá með blíðuveðri um mikinn hluta landsins.