Heilbrigðisráðuneytið sendir hér með út ákall til heilbrigðismenntaðs fólks sem er reiðubúið að skrá sig í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
Í ljósi mikillar fjölgunar Covid-smita í samfélaginu má gera ráð fyrir vaxandi álagi hjá heilbrigðisstofnunum og hætt er við auknum forföllum starfsfólks vegna smita og sóttkvíar. Alls hafa 152 heilbrigðisstarfsmenn skráð sig í bakvarðasveitina frá því að hún var endurvakin í október síðastliðinn.
Sem fyrr er jafnan mest þörf fyrir sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga og lækna en einnig er óskað eftir fólki á skrá úr öðrum heilbrigðisstéttum. Athygli er vakin á því að nemar í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sjúkraliðanámi geta skráð sig í bakvarðasveitina.