Bresk fiskibaka

  • 1 laukur, afhýddur og skorin í fjórðunga
  • 3-4 negulnaglar
  • 1 lárviðarlauf
  • 250 ml rjómi
  • 250 ml mjólk
  • 400 gr þétt, hvít fiskflök (t.d. þorsk)
  • 400 gr reykt ýsa
  • 30 gr smjör
  • 2 blaðlaukar, þvegnir og skornir í þunnar sneiðar
  • 30 gr hveiti
  • maldonsalt og svartur pipar
  • lófafylli af saxaðri steinselju
  • 300 gr hrár skelflettar rækjur (hægt að sleppa)

Þekja

  • 750 gr afhýddar kartöflur
  • 75 gr smjör í bitum
  • 50 ml heit mjólk
  • 2 eggjarauður
  • 75-100 gr rifinn cheddar ostur

Stingið negulnöglum í laukinn og setjið í pott ásamt rjóma, mjólk og lárviðarlaufi. Látið suðuna koma upp og bætið þá hvíta fiskinum og reyktu ýsunni í pottinn. Sjóðið í 3-4 mínútur, fiskurinn þarf ekki að vera soðinn í gegn. Hellið úr pottinum í sigti og geymið vökvann.

Bræðið smjör í potti og steikið blaðlaukinn þar til hann mýkist, um 4-6 mínútur. Bætið hveitinu saman við og hrærið í 2 mínútur. Hellið vökvanum af fiskinum rólega út í og hrærið vel á milli. Látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur og hrærið öðru hverju í pottinum. Kryddið með salti og pipar og bætið steinselju saman við.

Skerið afhýddar kartöflur í bita og setjið í pott með saltvatni. Sjóðið þar til kartöflurnar eru orðnar mjúkar í gegn. Hellið vatninu frá og stappið kartöflurnar. Hrærið smjöri og mjólk vel saman við og látið stöppuna kólna aðeins. Hrærið eggjarauðum saman við  og kryddið með salti og pipar.

Hitið ofninn í 180°. Skerið fiskinn niður í munnbitastærð og blandið bitunum, ásamt rækjunum, saman við blaðlaukssósuna. Setjið fiskinn og sósuna í eldfast mót og breiðið kartöflustöppunni yfir. Gerið rákir með gaffli yfir kartöflumúsina og stráið rifnum cheddar osti yfir. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til sósan í bökunni bullsýður og osturinn er kominn með fallegan lit.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit