Þann 10. mars næstkomandi ganga í gildi breytingar sem varða afhendingu lyfja í apótekum.
Eftir það verður einungis heimilt að afhenda lyf eiganda lyfjaávísunar, eða þeim sem hefur ótvírætt umboð hans til að fá þau afhent. Framvísa þarf persónuskilríkjum hvort sem um ræðir eiganda eða umboðsmann. Vakin er athygli á tilkynningu með nánari upplýsingum á vef Lyfjastofnunar.
Krafa um skriflegt umboð er gerð að gefnu tilefni því upp hafa komið tilvik þar sem lyf hafa verið leyst út af öðrum en eiganda lyfjaávísunar og án heimildar hans. Eins og fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar er því óhjákvæmilegt að skerpa á túlkun og framkvæmd ákvæðis í 18. grein reglugerðar nr. 1266/2017 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja, þar sem segir m.a.: „Lyf verða einungis afhent sjúklingi eða umboðsmanni hans …“ Til að ótvírætt sé hver geti talist umboðsmaður í þessu tilliti, verður því framvegis kallað eftir skriflegu umboði þess sem sækir lyf í apótek fyrir annan en sjálfan sig. Eins og áður segir þarf í öllum tilvikum að framvísa persónuskilríkjum fyrir afhendingu lyfja, hvort sem um ræðir eiganda lyfjaávísunar eða umboðsmann hans.
Eins og fram kemur í tilkynningu Lyfjastofnunar er unnið að því að finna rafræna framtíðarlausn fyrir veitingu umboðs í samvinnu við embætti landlæknis. Þangað til þarf að veita hefðbundið umboð í samræmi opinberar reglur. Til hagræðis hefur Lyfjastofnun birt eyðublað á vef sínum til útprentunar.
Af stjornarradid.is