Á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga, MTR, var birt í gærkvöldi:

Nú hefur embætti landlæknis lýst yfir neyðarstigi almannavarna vegna Covid-19 veirusmits. Mikilvægt er að fylgja í hvívetna leiðbeiningum embættisins. Viðbragðsáætlun og viðbragðsleiðbeiningar MTR má sjá á vef skólans á forsíðu.

Nemendur og starfsfólk sem hafa kvef eða inflúensueinkenni eru hvött til að vinna að heiman líkt og við gerum á óveðursdögum og nemendur tilkynna sig inn í Innu. Minnt er á að forðast heimsóknir til aldraðra og þeirra sem veikir eru fyrir til að hindra smit. Ef á heimili ykkar eru slíkir einstaklingar er heimilt að vinna að heiman, tilkynnið það í Innu eða til aðstoðarskólameistara Jónu Vilhelmínu Héðinsdóttur, villa@mtr.is

Gætið þess að vinnuhraða verður ekki breytt og engir frestir gefnir á verkefnaskilum en kennarar verða aðgengilegir eftir þeirra fyrirmælum í Moodle. Nú reynir á hæfni til fjarvinnu og fjarnáms sem þið hafið leyst svo einstaklega vel í vetur fjölmarga óveðurdaga.

Allir þurfa að gæta einstaklega vel að öllu hreinlæti, handþvotti og sprittun. Afgreiðsla í mötuneyti breytist þar sem ekki verður lengur hægt að skammta sér sjálfur heldur verður skammtað fyrir fólk.

Útlit er fyrir að starfsmenn sem sjá um þrif verði í verkfalli mánudag og þriðjudag þegar þetta er skrifað. Á afgreiðsluborði í anddyri eru sótthreinsiklútar sem áður og getur fólk tekið klút til að sótthreinsa svæði sem þeir telja sér mikilvægt.

Þetta er verkefni okkar allra, við þurfum fyrst og fremst að standa saman, sýna ábyrgð til að tryggja að þau sem eru í samfélagi okkar og veikir fyrir, séu verndaðir eins og kostur er. Ekki er talið líklegt að ungt og hraust fólk lendi í vanda þó það fái veiruna.

Mynd: GK