Síldarverksmiðjan í Djúpavík Mynd/af fb. Síldarminjasafnsins

Um miðjan febrúarmánuð var safnstjóri Síldarminjasafnsins fenginn sem gestafyrirlesari við Mercy háskólann í Detroit í Bandaríkjunum.

Nemendur sem leggja stund á nám í arkitektúr við skólann eru að vinna að rannsóknum sem tengjast stöðum og mannvirkjum sem nú standa sem einskonar minnisvarðar um það sem áður var. Rannsóknaraðferðir þeirra miða að því að horfa til menningar, sameiginlegs minnis, menningararfs og sögu – til viðbótar við byggingaraðferðir og arkitektúr, og eru þau að horfa sérstaklega til síldarverksmiðjunnar í Djúpavík.

Anita Elefsen hélt klukkustundarlangt erindi fyrir nemendurna um sögu síldarinnar á Íslandi og beindi sjónum ekki síst að síldarverksmiðjum og iðnaðinum sem þeim fylgdi auk þess sem sérstaklega var fjallað um síldarverksmiðjuna í Djúpavík sem byggð var á árunum 1934-1935 og á sér stórbrotna sögu.

Í kjölfarið fóru fram miklar umræður og með hjálp nútímatækni var einfalt mál að flytja fyrirlesturinn, svara spurningum og stýra umræðum.

Það er augljóst að víða er síldarsaga okkar Íslendinga til umfjöllunar og skemmtilegt að vita til þess að hún sé hluti af kennsluefni ólíkra námsgreina í háskólum erlendis.