Brynja Baldursdóttir, Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2023

Brynja Baldursdóttir, Bæjarlistamaður Fjallabyggðar 2023, sýnir um þessar mundir í safni Einars Jónssonar.

Á laugardaginn 11. Maí eru 150 ár frá fæðingu Einars Jónssonar. Sýning Brynju “Kom-andi” er hluti sýningarraðarinnar “Tími, tilvist og tileinkun: Hamskipti” sem efnt var til vegna 100 ára afmælis safnsins.

Eftirfarandi er brot af ræðu Brynju sem hún flutti við opnun sýningar hennar:

“Ég er fædd og uppalin í Reykjavík og var svo heppin að kynnast þessu safni Einars Jónssonar strax í æsku. Verk Einars og hans andans heimur hefur ætíð haft mikil áhrif á mig. Sjálf grúska ég mikið í andlegum málum og hugleiði reglulega eins og Einar. Vissulega tilheyrum við ólíkum tímum en ég finn samhljóm með honum handan tímans. Forgengileikinn og okkar viðkvæma líf virtist hafa verið honum hugleikinn og fjalla mörg verkanna hans um líf eða dauða. Ég fjalla hér um andartakið á milli. Áður en líf kviknar og áður en það umbreitist frá einu formi til annars.

Upphaflega byrjaði ég að eiga samtal við verk Einars “Fæðing Psyche” eða fæðingu sálar. Psyche er gjarnan tákngerð með fiðrildavængi. Ég skoðaði ferli þróunar eggs að fiðrildi sem hliðstæða umbreitingar mannsandans til þroska og birtingar. Enda er eins og við framköllumst með aldrinum og við tökum á okkur mynd. Ég tók þetta talsvert bókstaflega enda hef ætíð verið heilluð af táknfræði og arkitypum hvers skonar. Þegar líða tók á ferlið einfölduðust hugmyndirnar og urðu opnari og þróuðust út í allt annað. Niðurstaðan eru þessi verk sem fá nú að hvísla hér innan um voldug verk Einars.

Ég spyr: erum við að koma eða fara? Hvaðan erum við að koma og hvert förum við. Hver má koma og hver má fara? Oft stoppar líf stutt við og ekki verða allar hugmyndir að veruleika eða til framkvæmda. En allt myndar þetta vef sem tengir okkur bæði í því smáa sem stóra frá minnstu frumu til stjarnkerfis.

Núið er það sem við eigum og þar sem töfrarnir gerast. Það er uppfullt af óendanlegum möguleikum eins og óskrifað blað. Fræið sem verður að einhverju stórkostlegu. Þegar líf kviknar eða rétt áður en hugmynd efnisgerist. Það má sjá að ég skoðaði form lirfa og púpa, fræja og form fósturs ýmissa tegunda en valdi þó að útfæra formin þannig að þau yrðu óræðin en lifandi.

Þar sem ég er gestur Einars valdi ég að hafa verkin án hljóðs. Ég er auðmjúk og djúpt snortin að fá að hvísla hér með honum og þakka honum og ykkur fyrir gott boð.”

Sýningin stendur yfir til 25. ágúst næstkomandi.

Myndir/aðsendar