Heilsueflandi samfélag

Nú í vetur skrifaði Fjallabyggð undir samstarfssamning við Embætti landlæknis um Heilsueflandi samfélag og bættist þar með í sístækkandi hóp þeirra sveitarfélaga sem hafa á undanförnum árum undirritað slíkan samning.

En af hverju að koma á fót heilsueflandi samfélagi? Jú vegna þess að þrátt fyrir að miklar framfarir hafi orðið í læknavísindum síðustu áratugi og að góður árangur hafi náðst við heftingu útbreiðslu smitsjúkdóma, þá standa vestrænar þjóðir engu að síður frammi fyrir gríðarlegri aukningu á langvinnum sjúkdómum bæði andlegum og líkamlegum sem eiga m.a. rætur að rekja í óheilbrigðan lífstíl.

Til þess að taka á þessum vanda og bæta almenna lýðheilsu og vellíðan þurfum við að beita öflugum forvörnum sem byggja á gagnreyndri þekkingu og pólitískum aðgerðum en jafnframt að bjóða þegnum samfélagsins upp á tækifæri til að þróa með sér heilbrigðan lífstíl og auðvelda fólki að gera holla valið að auðvelda valinu en þar geta sveitarfélög látið til sín taka.

 

Hvernig vinnum við að heilsueflingu?

Til að stuðla að heilsueflandi samfélagi og auðvelda fólki að velja sér heilsueflandi lífstíl er mikilvægt að umhverfið sé rétt hannað og skipulagt. Það viljum við hjá Betri Fjallabyggð gera með því að gera göngu og hjólreiðastíga og sjá til þess að útbúin verði opin gróðursæl og græn útivistarsvæði ásamt leikvöllum fyrir börn. Við viljum sjá til þess að gangstéttar séu þannig úr garði gerðar að þær henti öllum, líka sjóndöprum, öldruðum og fötluðum.

Á veturnar viljum við leggja áherslu á að moka gangstéttar og göngustíga svo fólk geti auðveldlega farið gangandi eða hjólandi í vinnu og skóla. Einnig viljum við setja niður setbekki með reglulegu millibili fyrir eldra fólkið sem á oft erfitt með að ganga langar vegalengdir án hvíldar. Við viljum bæta aðgengi að íþróttamannvirkjum Fjallabyggðar og hafa frítt í sund og líkamsrækt fyrir aldraða og öryrkja. Mögulegt væri að koma á grenndargörðum þar sem íbúar gætu ræktað sitt eigið grænmeti. Með því er ekki einungis verið að stuðla að hollara mataræði heldur er það líka umhverfisvæn stefna að borða sem mest úr héraði.

En það er ekki nóg að huga að líkamlegri heilsu, andleg heilsa fólks og ástundum geðræktar er ekki síður mikilvæg. Börn þurfa t.a.m. að fá tækifæri til að nýta hæfileika sína og styrkleika og byggja upp jákvæða og sterka sjálfsmynd með trú á eigin getu en þetta eru ein af mikilvægustu undirstöðum andlegs heilbrigðis. Þarna skiptir skólinn miklu máli því réttur stuðningur og hvatning getur skipt sköpum. En foreldrar gegna einnig lykilhlutverki, ekki bara sem uppalendur heldur eru þeir gríðarlega sterkar fyrirmyndir fyrir börnin sín hvort sem þeir eru meðvitaðir um það eða ekki. Orð þeirra og hegðun hafa mjög mikil áhrif á líf og líðan barna. Einstaklingur með góða sjálfsmynd er hæfari til að eiga í góðum samskiptum við aðra og er færari um að takast á við mótlæti í lífinu, það á bæði við um börn og fullorðna. Jákvætt viðhorf skiptir einnig gríðarlega miklu máli því staðreyndin er sú að beint samband er á milli hugsana, þess sem við segjum og hvernig okkur líður. Þess vegna er mikilvægt að horfa jákvæðum augum á þær áskoranir og breytingar sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni og einbeita sér að uppbyggjandi hlutum, því sem veldur vellíðan.

Í grunninn gengur heilsuefling samfélags út á að efla löngun fólks til að breyta hegðun sinni og lífstíl en það ferli krefst samvinnu bæjarbúa, bæjaryfirvalda og sérfræðinga. Hlutverk bæjaryfirvalda er að gera fólki auðveldara að velja heilbrigðari kostinn. Ef vel tekst til má búast við því að íbúar bæti heilsu sína, lífsgæði og hamingju sem gerir samfélagið enn eftirsóknarverðara, öruggara, hagkvæmara, sjálfbærara og skilvirkara. Svona umfangsmiklar breytingar taka þó tíma og krefjast samvinnu enda er til mikils að vinna.

Þessu viljum við frambjóðendur BETRI FJALLABYGGÐAR koma til leiðar, ef þú ert sammála því settu þá X við I á kjördag.

 

Hrafnhildur Ýr Denke

Sérfræðingur í atvinnutengdri starfsendurhæfingu og frambjóðandi Betri Fjallabyggðar.