ER raunhæfur möguleiki að lækka fasteignagjöld eldriborgara og öryrkja?

Svar okkar er eindregið, já það er svo.
Skoðum þetta nánar. Mörg sveitarfélög, þar á meðal Fjallabyggð hafa skýrar og strangar reglur um lækkun fasteignaskatts sem þau setja sjálf. Hvoru tveggja eru þær reglur um tekjutengdan stighækkandi afslátt og eða að fasteignaskattur er alfarið felldur niður svo sem þekkt er í einu sveitarfélagi.

Reglur um tekjumörk til lækkunar fasteigaskatts eru nokkuð mismunandi eftir sveitarfélögum.
Við 100% afslátt fasteignaskatta mega tekjur vera þessar:
Hjá einstaklingum Í Fjallabyggð allt að 2,3 mkr., Í Reykjavík 3,9 mkr. og í Kópavogi 4,5 mkr.
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum, í Fjallbyggð 3,3 mkr. í Reykjavík 5,5 mkr. og í Kópavogi 5,8 mkr. Við 50% afslátt fasteignaskatta mega tekjur vera þessar:
Hjá einstaklingum, í Fjallabyggð 2,7 – 3,1 mkr. í Reykjavík 4,5 – 5,2 mkr. í Kópavogi 4,6 – 4,7 mkr.
Hjá hjónum eða samsköttuðum aðilum: í Fjallabyggð 4 – 4,6 mkr. í Reykjavík 6,1 – 7,2 mkr. í Kópavogi 6,1 – 6,4 mkr.

Af þessum dæmum má sjá að sveitarfélögin stýra afsláttarreglum og geta stillt tekjumörk þannig að einstaklingar, hjón eða sambúðarfólk með lágar og miðlungs lágar tekjur njóti afsláttar. Í stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð fyrir kosningarnar 26. maí nk. er fyrirheit um hækkun á núverandi tekjuviðmiðum við útreikning afsláttar fasteingaskatts hjá eldri borgurum og öryrkjum. Auk 10% lækkunar fasteignaskatts að lágmarki á kjörtímabilinu.

Hvers vegna afsláttur fyrir eldri borgara?
Við starfslok og töku eftirlauna (Tryggingastofnun – lífeyrissjóðir) lækka tekjur verulega, allt að 50% og í sumum tilfellum meira. Skattstofnar vegna opinberra gjalda, hvort heldur sem þeir renna til ríkisins eða sveitarfélaganna lækka ekki á móti þessum lækkuðu tekjum sem ekki getur talist sanngjarnt eða eðlilegt þegar tekjuhliðin er skoðuð. Lækkun fasteignaskatta sem hækkað hafa verulega undanfarin ár getur haft úrslitaáhrif á möguleika eldra fólks sem lágar tekjur hafa á að búa áfram, eftir starfslok, á heimili sínu, sem almennt er talið hagkvæmasta búsetuúrræðið fyrir fólkið og sveitarfélagið.

Tökum okkur varðstöðu
Umræða um lækkun fasteignasatta hér í Fjallabyggð hófst á vettvangi félaga eldri borgara á fyrri hluta síðasta árs. Þá höfðu verulegar hækkanir komið fram sem auðvitað geta reynst þungbærar öðrum íbúum sveitarfélagsins, ekki síst barnmörgum tekjulágum fjölskyldum, sem og öryrkjum og eldri borgurum. Þessi umræða hefur nú fengið hljómgrunn víða og er það gott. Við, sem þessa grein ritum og stöndum að stefnumótun til framtíðar fyrir Fjallabyggð á vettvangi D-lista Sjálfstæðisflokks, erum reiðubúin að standa dyggan vörð um hagsmunamál eldra fólks og öryrkja í Fjallabyggð.

Greinarhöfunar eru formenn félaga eldri borgara á Siglufirði og í Ólafsfirði.
Ingvar Ágúst Guðmundsson skipar 6. sæti
Svava Jóhannsdóttir skipar 12. sæti