Á facebooksíðu Sjálfstæðisflokks Fjallabyggðar birti Tómas Atli Einarsson eftirfarandi grein um málefni barna og unglinga í Fjallabyggð, hér neðan við er aðsend grein frá Sigríði Vigdísi Vigfúsdóttur sem svar við grein Tómasar.

Sjálfstæðisflokkurinn í Fjallabyggð setur börn og ungmenni í forgang í sinni stefnuskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar.

Hækkun systkinaafsláttar vistunargjalds á leikskóla, frístundastyrkur hækkaður úr 30.000 í 40.000 kr, hækkun á niðurgreiðslu skólamáltíða og frí námsgögn fyrir grunnskólabörn. Þessi atriði eiga sér samt samhljóm meðal allra framboða.

Það sem skilur stefnumál Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnarkosningum frá hinum framboðunum í Fjallabyggð í málefnum barna og ungmenna er innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Ekki fer mikið fyrir þessu máli í stefnuskránni og örugglega margir sem ekki hugsa út í það hversu stórt mál þetta er fyrir börnin í Fjallabyggð.

Sveitarfélög víðsvegar um heim hafa innleitt þetta í sína stjórnsýslu síðan árið 1996. Akureyri er fyrsta íslenska sveitarfélagið sem innleiðir Barnasáttmálann hjá sér sem tilraunaverkefni UNICEF.

Með innleiðingu Barnasáttmálans öðlast starfsmenn og kjörnir fulltrúar Fjallabyggðar einskonar verkfærakistu og verkferla sem gerir þeim kleift að nálgast málefni barna á skipulagðari og markvissari hátt.

Innleiðingarferli þessa verkefnis tekur tvö ár og felur í sér mat á öllum þáttum stjórnsýslunnar og stofnanna sveitarfélagsins sem koma að málefnum barna.

Samkvæmt sáttmálanum eiga öll börn að njóta sömu réttinda án tillits til kynþáttar, kynferðis, trúar, ætternis, fötlunar, félagslegrar stöðu eða annarra aðstæðna. Þessir þættir eru grunnstefið í hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga.

Fimm helstu þættir sáttmálans eru:
1. Þekking á réttindum barna.
2. Því sem barni er fyrir bestu.
3. Jafnræði – að horft sé til réttinda allra barna
4. Þátttöku barna
5. Barnvænni nálgun

Með þínu atkvæði ætla ég að beita mér fyrir þvi að Barnasáttmáli UNICEF verði innleiddur, því hvert barn er okkur dýrmætt. Börnum og ungmennum vil ég búa umhverfi þar sem þau njóta réttinda sinna og þau öðlist fræðslu og þekkingu á þeim.

Til að innleiðingin geti átt sér stað þarf þverpólítíska samstöðu um málið.
Við erum til, hvað með ykkur?

Setjum börnin og fjölskyldur í Fjallabyggð í forgang, setjum X við D.

Tómas þriðji

 

Trölli.is fékk aðsenda eftirfarandi grein frá Sigríði Vigdísi Vigfúsdóttur sem svar við grein Tómasar. 

Vinsamleg ábending til frambjóðanda í þriðja sæti Sjálfstæðisflokksins í Fjallabyggð.

Að slá sig til riddara korter fyrir kosningar og telja kjósendum trú um að hér sé mættur sérstakur talsmaður barna finnst mér vægast sagt billegt.

Það vita allir að ef áhugi er hjá kjörnum fulltrúum sem hafa með þennan málaflokk að gera þá ættu þessir verkferlar og verkfærakista nú þegar að vera til staðar. Náir þú kjöri og hafir þú slíkan metnað fyrir börn í Fjallabyggð þá ætti að verða þitt fyrsta verk að ganga úr skugga um á hvaða stað þau mál eru sem komið hafa inn á borð félagsmálayfirvalda og barnaverndarnefndar hér í Fjallabyggð. Þannig tel ég skynsamlegast að byrja nýtt upphaf í velferð barna í Fjallabyggð. Við höfum ekki tíma til að bíða í tvö ár, til þess er hvert barn of dýrmætt. Tökum fyrst til í eiginn ranni og síðan má fara í að afrita áætlanir Akureyrarbæjar og Kópavogs um innleiðingu barnasáttmála UNICEF eða aðrar leiðir þar sem velferð barna er sett í öndvegi.

Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðuþjóðanna þá eiga börn rétt á að á þau sé hlustað!

Góðar stundir,

Sigríður Vigdís Vigfúsdóttir

 

Samantekt: Kristín Sigurjónsdóttir
Mynd: Gunnar Smári Helgason