Mikil þekking og reynsla hefur safnast í fjölþjóðlegu samstarfi sem nemendur og kennarar við Menntaskólann á Tröllaskaga hafa tekið þátt í síðustu ár.

Ida Semey hefur verið í fararbroddi í þessu starfi. Hún hefur skrifað flestar styrkumsóknir og auk þess átt drjúgan þátt í að skipuleggja verkefni og stýra þeim.

Þetta hefur ekki farið framhjá starfsmönnum Rannís sem sjá um samskiptin við framkvæmdastjórn ESB vegna Erasmus+ verkefnanna. Þess vegna er Ida í hópi tíu Íslendinga sem verða í Brussel í vikunni og taka þátt í að leggja línur í þessu samstarfi fyrir tímabilið 2021-2027.

Sex íslensku fulltrúanna eru reyndir verkefnisstjórar í Evrópuverkefnum en fjórir eru starfsmenn Rannís. Á fundunum í Brussel verða áherslur og skipulag Evrópuverkefnanna á næstu árum kynnt og þátttakendur hafa tækifæri til að láta í ljósi álit sitt á þeim áður en formlega verður frá öllu gengið.


Mynd: Gísli Kristinsson