Áhrif af aukinni skattlagningu á skemmtiferðaskip hafa verið mjög mikil fyrir Fjallabyggð, þar sem nú þegar hafa verið afbókaðar 21 skipakomur sumarið 2026. Aðeins 12 skipa komur eru nú bókaðar, samanborið við 33 komur skemmtiferðaskipa sem bókaðar voru í sumar.
Í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar þann 31. júlí kemur fram að ráðið lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þróunar mála, sem tengist aukinni skattlagningu á ferðaþjónustu fyrri ríkisstjórnar.
Þrátt fyrir að skipakomur til Fjallabyggðar séu ekki mjög margar, hefur fyrirsjáanlegur samdráttur vegna þessa haft miklar afleiðingar, bæði á stöðu hafnarsjóðs og þá þjónustuaðila sem hafa byggt upp starfsemi sína með það að markmiði að þjónusta ferðamenn sem koma með skemmtiferðaskipum.
Bæjarráð Fjallabyggðar skorar á núverandi stjórnvöld að endurskoða lagasetningu sem heimilar þessa auknu skattlagningu. Samkvæmt skýrslu sem Hafnasamband Íslands óskaði eftir, hefur þessi breyting þegar haft veruleg áhrif á umsvif skemmtiferðaskipa við Ísland, sem staðfestist með fjölda afbókana.