Byggðaþróunarverkefninu Áfram Hrísey var á vordögunum úthlutað styrk til tveggja ára, samtals 10.000.000 kr. úr byggðaáætlun með stuðningi SSNE (Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra).

Þessi styrkur er úr sjóði sem er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 (aðgerð C.1).

Verkefnið og verkefnastjórn þess er í nafni Ferðamálafélags Hríseyjar en unnið er að stofnun Þróunarfélags Hríseyjar sem mun halda utanum verkefnið ásamt fleiri verkefnum sem eru í bígerð. Í upphafi verður unnin stefnumótun fyrir Hrísey sem ákjósanlegan búsetukost og gerð greining á stöðu á húsnæðis- og, atvinnumálum. Í framhaldi verður unnið við markaðssetningu á Hrísey sem vænlegum búsetukosti með áherslu á þá góðu grunnþjónustu sem er til staðar í Hrísey.

Ásrún Ýr Gestsdóttir

Ásrún Ýr Gestsdóttir var ráðin verkefnisstýra Áfram Hrísey í september. Hefur hún meðal annars byggt upp nýja samfélagsmiðla fyrir Hrísey og samtengt þá við hrisey.is vefinn þar sem má finna fréttir, viðburði og allar helstu upplýsingar um lífið í Hrísey.

Ásrún er Hríseyingur í húð og hár sem flutti aftur til eyjarinnar síðla árs 2021 eftir tveggja áratuga búsetu víðsvegar um meginlandið. Ásrún er gift Klas Rask og eiga þau þrjú börn sem öll stunda nám við Hríseyjarskóla. Hún leggur nám á byggðaþróun við félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri sem hún sinnir meðfram verkefninu.

Netfang Ásrúnar er afram@hrisey.is, endilega hafið samband við hana fyrir frekari upplýsingar um Hrísey eða verkefnið Áfram Hrísey.


Skoða á hrisey.is

Forsíðumynd: úr vefmyndavél á hrisey.is