Þrettándinn er 6. janúar og er stytting á þrettándi dagur jóla og er almennt kallaður síðasti dagur jóla.

Upphaflega hét hann opinberunarhátíð meðal Rómarkirkjunnar og hefur verið tengdur ýmsum kristnum trúaratburðum. Hann var talin fæðingardagur Krists, áður en sú trú fluttist yfir á 25. desember. Á 4. og 5. öld fór að tíðkast að minnast fæðingarinnar þann 25. desember en skírnar Krists og Austurlandavitringanna 6. janúar.

Formlega var ákveðið með það fyrirkomulag árið 567 á 2. kirkjuþinginu sem haldið var í Tours í Frakklandi.

Í Biblíunni stendur hvergi hvenær Kristur fæddist og fyrir fyrstu kristnu söfnuðina fyrir botni Miðjarðarhafs var fæðingin þeim ekki talin eins mikils virði og skírnin og þó sérstaklega dauðastundin þegar menn fæddust til hins eilífa lífs, enda er dauðdagi Jesú Krists tímasettur í Biblíunni mjög nákvæmlega.

Um tveim öldum eftir áætlaða fæðingu Krists tóku kristnir menn samt að velta fæðingardegi hans fyrir sér. Fyrsti fæðingardagurinn sem menn komu sér saman um, var 6. janúar samkvæmt rómversku tímatali (júlíanska tímatalinu). Þarna, eins og með marga aðra daga kirkjunnar, tóku þeir yfir eldri tyllidag en 6. janúar hafði tengst flóðunum í Níl frá fornu fari. Hann var nefndur Opinberunarhátíð (Epiphania) en sagt var að Jesús hefði opinberast á fjóra vegu: við fæðinguna, tilbeiðslu vitringanna, skírnina í ánni Jórdan og brúðkaupið í Kana þegar hann framdi fyrsta kraftaverkið.

Þegar kristni var gerð að ríkistrú í Rómarveldi, seint á 4. öld, ákváðu þau að gera skammdegishátíð sína að fæðingardegi Jesú Krists. Það var sólhvarfadagurinn, sem hét formlega „dagur hinnar ósigrandi sólar“ (l. dies natalis Solis invicti). Sólhvörfin færðust til í júlíanska tímatalinu en á þessum tíma (4.öld) bar þau upp á 25. desember. Kirkjan hófst nú handa við að réttlæta þessa ákvörðun sína um tilfærslu dagsins meðal annars með því að segja að Jesú Kristur væri hin eina sanna sól sem hefði sigrað dauðann og hefði hann sjálfur sagst vera ljós heimsins.
Fram til ársins 1770 hvíldi á þrettándanum helgi og var hann almennur frídagur en það ár var hann afhelgaður, sem og þriðji í jólum, þriðji í páskum og þriðji í hvítasunnu, sem einnig höfðu verið helgi-og frídagar, þar sem konungi fannst íslensk alþýða hafa of mikið af almennum frídögum. Við það minnkaði mikið allt tilstand á þessum degi

Hérlendis hefur þrettándinn öðru fremur verið lokadagur jóla en eftir tímatalsbreytinguna árið 1700 munaði ekki miklu að hann bæri upp á sama dag og jólin hefðu annars byrjað samkvæmt gamla tímatalinu. Íslendingar undu því illa að færa jólin til með þessarri tímatalsbreytingu og var til dæmis í fyrsta almanakinu eftir tímatalsbreytinguna, sem Jón Árnason skálholtsbiskup gaf út 1707, sjö árum eftir breytinguna, merkt við 5. janúar sem „jóladagurinn gamli“ og var hann alveg fram um 1900 kallaður „gömlu jólin“. Sá ruglingur sem tímatalsbreytingin olli kann að valda því að sagnir, þjóðtrú og siðir um þrettándann, jól og nýársnótt svipar oft saman, sagnir eins og að kýr öðlist mannamál, selir kasti hamnum, að gott sé að sitja á krossgötum, leita spásagna og um vistaskipti álfa og huldufólks. Á þrettándanum fer Kertasníkir, síðastur jólasveina, frá mannabyggðum aftur til fjalla og þar með lýkur jólunum.

Algengt var að gera sér dagamun í lok jóla og einnig var þrettándinn einskonar varadagur fyrir útiskemmtanir ef veður brást um áramót. En nær eini siðurinn sem tengist þrettándanum í dag, eru útiskemmtanir með brennu, dansi og söng. Þar koma fram álfar, tröll, jólasveinar og aðrir slíkir. Fólk kemur saman við brennuna með kyndla, skýtur upp síðustu flugeldunum frá áramótunum og syngur saman áramóta og álfasöngva.


Heimild og mynd: Wikipedia