Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn
15. – 21. september 2025
Vikan var fjölbreytt og annasöm með ýmsum fundum, undirbúningi verkefna og heimsóknum. Hún hófst á fundi framkvæmdaráðs þar sem farið var yfir það sem efst er á baugi í rekstrinum. Að fundi loknum skrifaði ég dagbókarfærslu síðustu viku og sinnti fjölbreyttum verkefnum tengdum fjárhagsáætlun, samþykkt reikninga og starfsmannamálum. Þá fór einnig talsverður tími í tölvupósta og önnur samskipti. Einnig sat ég fund stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en þar sit ég fyrir hönd Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þar var unnið að undirbúningi næstu úthlutunar sem eins og vant er verður auglýst fljótlega
Þriðjudagurinn hófst á stjórnendafundi þar sem forstöðumenn kynntu starfsáætlanir eininga sinna fyrir samstarfsfólki. Þessir mánaðarlegu fundir eru mikilvægur vettvangur upplýsingamiðlunar og stuðla að betri samþættingu í starfseminni. Fundurinn var óvenju langur þar sem góðar umræður sköpuðust um inntak starfsáætlana. Það er ekki ofsögum sagt að það sé einvala lið í forstöðumannahópnum sem hefur lagt mikinn metnað í starfsáætlanir sínar. Kann ég þeim bestu þakkir fyrir það. Eftir hádegi fundaði ég með starfsmönnum SSNV um hugmyndir að lýðheilsukorti á Norðurlandi vestra – áhugaverða hugmynd sem verður spennandi að sjá hvert þróast. Ég heimsótti einnig Félag eldri borgara í nýju aðstöðunni þeirra í Félagsheimilinu, færði þeim pottaplöntu og þakkaði fyrir þeirra framlag við að koma rýminu í notkun. Þau hafa lagt til bæði vinnu og efni og skapað hlýlegt umhverfi. Það er einlæg ósk mín að starf þeirra vaxi og dafni í Félagsheimilinu. Þau halda úti metnaðarfulltri dagskrá sem er öllum opin og er kynnt á facebook síðu félagsins. Mikill hluti dagsins fór jafnframt í undirbúning fyrir kynningu á ráðstefnu Selasetursins sem fram fór síðar í vikunni, þar sem ég fjallaði um hvernig samstarf í verkefnum getur skilað góðum árangri – með dæmi úr verkefninu um samfélagsmiðstöðina.
Fyrri hluta miðvikudags fundaði ég ásamt oddvita með fulltrúum Hesteigendafélagsins um hugmyndir að uppbyggingu í hesthúsahverfinu ofan Hvammstanga. Einnig svaraði ég fjölmörgum tölvupóstum, hringdi símtöl og fylgdi eftir málum á eftirfylgnilistanum. Seinni hluta dagsins og fimmtudags tók við frí frá störfum sveitarstjóra sem nýtt var í verkefni fyrir Orkubú Vestfjarða, m.a. heimsókn á starfsstöð félagsins á Hólmavík og fund stjórnar á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði. Þegar ég segi frí frá störfum sveitarstjóra þá er það alls ekki svo að hægt sé að slökkva á því hlutverki. Áfram berast símtöl og póstar sem ég alla jafna bregst við þó ég sé ekki í Ráðhúsinu. Það er nú einhvernveginn þannig að starfið er þess eðlis að það tekur svolítið yfir líf manns. Því dettur mér ekki í hug að kvarta yfir því starfið er það skemmtilegasta sem ég hef sinnt til þessa en um leið það mest krefjandi – og hef ég þó tekist á við mörg krefjandi verkefni í gegnum tíðina. Og þó ég segi frí. Þá fór fimmtudagskvöldið fór í vinnu heimavið þar sem ég vann erindi til samgönguráðs þar sem farið var yfir þau verkefni sem sveitarstjórn leggur höfuð áherslu á að rati inn á samgönguáætlun sem nú er í vinnslu. Ekki þarf neinn að undra að þar er Vatnsnesvegurinn efst á blaði og áframhaldandi framkvæmdir við veginn.
Á heimleið frá Ströndum náði ég þessari fallegu mynd af Hvammstanga af Hrútafjarðarhálsinum. Þó þungbúið sé lýsir regnboginn bæinn upp.

Föstudagurinn hófst á fundi með formanni byggðarráðs þar sem farið var yfir helstu mál og fundardagskrá byggðarráðsfundar komandi mánudags stillt upp. Að honum loknum lauk ég við undirbúning kynningar á ráðstefnu Selasetursins. Áður en að henni kom tók ég á móti starfsfólki Ráðhúss Dalabyggðar sem var í haustferð. Þau fengu lánaða fundaaðstöðu í Ráðhúsinu en eins og við eru þau að vinna fjárhagsáætlun komandi árs. Að þeirra fundi loknum fór ég með þau í heimsókn í Grunnskólann og Íþróttamiðstöðina þar sem þau fengu kynningar á því starfi sem þar fer fram. Til stóð að heimsækja líka leikskólann en því miður vannst ekki tími til þess. Eftir hádegið flutti ég svo títtnefnd erindi á ráðstefnu Selasetursins. Ráðstefnan stóð yfir allan daginn, fyrir hádegi í Grunnskólanum en eftir hádegi á Selasetrinu. Því miður náði ég ekki að hlýða á önnur erindi þar sem fjölmörg verkefni kröfðust athygli, m.a. að ganga frá og senda út fundarboð fyrir byggðarráðsfund og fund aukins byggðarráðs sem báðir voru á dagskrá komandi mánudags. Aukið byggðarráð fjallar á sínum fundi um styrkbeiðnir og fjárfestingar vegna fjárhagsáætlunargerðar sem krefjast ítarlegrar gagnaöflunar og yfirferðar.
Helgin hófst á góðum stundum með eldri ömmustelpunni sem var hjá mér í gistipössun á föstudeginum. Það var kærkomið að fá að njóta þess tíma áður en ég hélt í vinnuna á laugardagsmorgninum. Dagurinn fór svo í að vinna upp ókláruð verkefni vikunnar, skrifa dagbók, uppfæra verkefnalista og undirbúa fundargerðir fyrir byggðarráðsfundina sem fram undan eru og margt, margt fleira. Þannig nýttist laugardagurinn vel til að bæði hreinsa upp og búa í haginn fyrir komandi viku.
Haustið minnti í vikunni rækilega á sig með vindi og kulda. Á laugardagsmorgninum var hitamælirinn á bílnum í mínus 0,5 gráðum. Að sama skapi var í vikunni hægt að njóta fallegu birtunnar sem fylgir september. Nú bíða mikilvæg verkefni fram undan, ekki síst tengd fjárhagsáætlun. Sú vinna er spennandi og gefandi enda eru þar lagðar línur sem hafa áhrif á framgang og uppbyggingu samfélagsins.
Má til með að láta fylgja með mynd af syni mínum og ömmustelpu njóta sólsetursins yfir Heggstaðanesinu á föstudagskvöldið.

Myndir og heimild/af vefsíðu Húnaþings vestra