Á 879. fundi byggðarráðs Skagafjarðar var tekinn fyrir samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra og sú ákvörðun tekin að endurnýja ekki samninginn við næstu endurnýjun vegna breyttra aðstæðna. Áður hafði Húnaþing vestra tekið þá ákvörðun að endurnýja ekki samninginn. Eftirfarandi bókun var gerð á fundi Byggðarráðs Skagafjarðar:

Samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra gildir til 31. desember 2019 og er í samningnum kveðið á um að aðildarsveitarfélögin skulu ákveða sameiginlega fyrir 1. nóvember 2019 hvort samningurinn verði endurnýjaður. Málið áður á dagskrá 876. og 878. fundar byggðarráðs.

Byggðarráð Sveitarfélagsins Skagafjarðar harmar að 20 ára samstarf sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í málefnum fatlaðs fólks sé á enda runnið með brotthvarfi Húnaþings vestra frá núverandi samstarfi frá og með næstu áramótum.

Í ljósi nýrrar stöðu telur byggðarráð farsælast að Sveitarfélagið Skagafjörður sinni málefnum fatlaðs fólks eingöngu innan sinna sveitarfélagamarka þegar gildandi samningur rennur út. Þó er byggðarráð reiðubúið til að gera viðauka við nýgerðan samning við Akrahrepp um að veita þjónustu í málaflokknum til íbúa hreppsins ef vilji þaðan stendur til þess.