Nýjasta dagbókarfærsla Unnar Valborgar Hilmarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra er komin á vefinn

Vikan hófst með tveimur frídögum, mánudag og þriðjudag sem ég nýtti til útivistar í góðra vina hópi. Það er alltaf gott að brjóta upp daglegar venjur með útiveru og hressandi samveru og hlaða þannig batteríin. Veðrið var þó hluta tímans frekar leiðinlegt og nýtti ég því tækifærið og lauk nokkrum málum af í tölvunni. Hún er aldrei langt undan.

Á miðvikudag hófst vinnuvikan af fullum krafti. Fyrri hluta dags fundaði ég með skipulags- og byggingafulltrúa vegna ýmissa mála sem þar eru til umfjöllunar og sinnti ýmiskonar skrifborðsvinnu, tölvupóstum, reikningum o.s.frv. Eftir hádegið hitti ég fréttamann RÚV sem var að vinna að frétt um stöðu mála vegna lagningar hitaveitu suður Hrútafjörð sem ekki hefur enn verið ráðist í. Íbúar á svæðinu hafa eðlilega mikinn áhuga á þessu verkefni enda bætir hitaveita búsetuskilyrði til mikilla muna. Miklar hitaveituframkvæmdir hófust í sveitarfélaginu árið 2015 en síðan þá hefur margt breyst. Verð á efni hefur hækkað verulega, heimsfaraldurinn lék fjárhag sveitarfélaga grátt og verðbólga ásamt háum vöxtum hafa gert alla fjármögnun erfiðari. Þrátt fyrir þessar áskoranir er unnið áfram að málinu. Nú er verið að skoða möguleika á svokölluðum varmaveitum sem væru í eigu hitaveitunnar og gætu auðveldað fólki rekstur slíkra kerfa. Þróun slíkra lausna hefur verið hröð og þær eru auk þess hakvæmari kostur en lagning hitaveiu. Styrkur hefur fengist úr byggðaáætlun til að kanna fýslileika þessa og verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður. Einnig sendi sveitarfélagið inn styrksumsókn vegna lagningar hitaveitunnar sjálfrar og vonast er til að niðurstaða úr henni liggi fljótlega fyrir. Ég get því ekki tekið undir að ekkert hafi verið að gert á þessu kjörtímabili en afar brýnt er að allar forsendur svo stórra verkefna séu ígrundaðar vel áður en af stað er farið. Eins og ég sagði í viðtalinu hefur engin ákvörðun verið tekin um að slá þetta verkefni út af borðinu og áfram verður unnið að því. Hér má sjá umfjöllunina á vef RÚV.

Í sömu ferð tók fréttamaðurinn stutt viðtal við mig út af húsnæðisuppbyggingunni sem er í gangi núna á Hvammstanga. Það varð að frétt í útvarpsfréttum degi seinna og stuttri frétt inn á vef RÚV.

Að viðtölunum loknum fundaði samstarfsnefnd um formlegar viðræður varðandi mögulega sameiningu Húnaþings vestra og Dalabyggðar. Síðasta vor var tekin ákvörðun um að fara í formlegar viðræður. Þær fela í sér að farið er í gegnum alla helstu þætti í rekstri sveitarfélaganna – þjónustu þeirra, fjármál, mannauð, stjórnsýslu og framtíðarsýn svo eitthvað sé upp talið. Markmiðið er að meta kosti og galla sameiningar á faglegan hátt og útbúa tillögur sem síðan verða kynnt íbúum beggja sveitarfélaga og í framhaldi leggja til við sveitarstjórnir beggja sveitarfélaganna. Íbúar hafa síðasta orðið um hvort sameining verði að veruleika. Ferlið er því bæði opið og gagnsætt, þar sem raddir íbúa skipta mestu máli. Hér er að finna nánari útlistun á því ferli sem fylgja þarf í sameiningarviðræðum sveitarfélaga. Meira um þetta hér rétt á eftir.

Seinnipartinn átti ég fund með fulltrúum Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra þar sem rætt var um fyrirhugaða stofnun farsældarráðs í landshlutanum. Slíku ráði er ætlað að efla samstarf sveitarfélaga, stofnana og annarra hagaðila með það að markmiði að tryggja farsæld barna og ungmenna í samræmi við svokölluð farsældarlög. Ráðið mun vinna að því að samræma og samhæfa þjónustu þannig að hún nýtist fjölskyldum sem best, og stuðla að því að öll börn í landshlutanum fái notið sín á eigin forsendum.

Fimmtudagurinn var að mestu helgaður sveitarstjórn. Fyrir hádegi fór fram fyrsti fundur aukins byggðarráðs vegna fjárhagsáætlunargerðar, þar sem skilgreindar voru forsendur fjárhagsáætlunar, tekin var ákvörðun um frístundakortið 2026 (kr. 25.000) og farið yfir starfsáætlanir forstöðumanna. Sjá fundargerð hér. Aukið byggðarráð er samkvæmt samþykktum sveitarfélagsins skipað sveitarstjórn í heild og fundar aðeins í kringum fjárhagsáætlunargerð. Tryggir það fyrirkomulag aðkomu bæði meiri- og minnihluta að fjárhagsáætlunargerðinni sem að mínu mati er afar mikilvægt og hefur reynst mjög vel.

Eftir hádegi var svo sveitarstjórnarfundur þar sem m.a. voru staðfestar afgreiðslur nefnda og ráða. Tiltek ég hér sérstaklega nokkur atriði af byggðarráðsfundum sem voru staðfest:

  • Óbreytt forgangsverkefni áfangastaðaáætlunar 2025: Vatnsnes, Borðeyri, Reykir í Hrútafirði, Kolugljúfur og stígakerfi milli Laugarbakka–Hvammstanga–Kirkjuhvamms.
  • Uppsögn Þorgilsar Magnússonar á starfi sínu sem sviðsstjóri umhverfis-, veitu- og framkvæmdasviðs og mér falið að hefja ráðningarferli í samráði við ráðgjafa.
  • Slitaferli Leigufélagsins Bústaðar hses. samþykkt en þær íbúðir sem félagið átti og rak á Lindarvegi voru lagðar inn í Brák og því engin starfsemi í félaginu.
  • Skipaðir voru vinnuhópar um umferðaröryggisáætlun og Aðalskipulag Húnaþings vestra 2026–2038. Munu þeir leiða vinnu við þessi verkefni.
  • Ákvörðun um að setja drög að þjónustustefna í opið samráð staðfest.
  • Sveitarstjóra veitt umboð til sölu íbúðar að Hlíðarvegi 25.

Vert er að minna á að ákvarðanir byggðarráðs taka ekki gildi fyrr en sveitarstjórn hefur staðfest þær ef frá er talið á sumarleyfistíma sveitarstjórnar þegar byggðarráð hefur sömu heimildir til afgreiðslu mála og sveitarstjórn hefði ella. Sum undrast að stundum getur tekið nokkrar vikur að fá tilkynning um afgreiðslu máls sem kemur inn á byggðarráðsfund en ekki er hægt að tilkynna um afgreiðslur fyrr en sveitarstjórn hefur staðfest þær. Það er því ekki seinagangi sveitarstjóra um að kenna í þeim tilfellum :).

Á sveitarstjórnarfundinum var samþykkt að íbúakosningar vegna sameiningarviðræðna Húnaþings vestra og Dalabyggðar fari fram 28. nóvember – 13. desember 2025 og að kosningaaldur verði 16 ár. Jafnframt var boðað til sameiginlegs fundar kjörstjórna beggja sveitarfélaganna til skipunar sameiginlegrar kjörstjórnar. Ákvörðun um kjördaga virðist hafa komið einhverjum á óvart, en það hefur legið fyrir frá því að ákvörðun um formlegar viðræður var tekin – og er bundið í lög – að þegar formlegar viðræður eiga sér stað þá lýkur þeim alltaf með kosningu. Íbúar hafa því ávallt síðasta orðið. Nú var verið að ákveða kjördaga í samræmi við framangreint og að kalla kjörstjórnir saman til undirbúnings kosningarinnar sem er umfangsmikið verk og þarf góðan tíma til. Þar til kosið verður verða haldnir tveir íbúafundir í hvoru sveitarfélagi sem auglýstir verða innan tíðar. Á þeim fyrri verður kynnt vinna vinnuhópa um mögulega framtíðarsýn og fyrirkomulag starfsemi sameinaðs sveitarfélags ef til sameiningar kemur. Á þeim fundum fá íbúar tækifæri til að setja sitt mark á þær tillögur sem er afar mikilvægt. Niðurstöður þess fundar verða unnar í lokatillögur sem kynntar verða á öðrum íbúafundum beggja vegna Laxárdalsheiðar áður en kosið verður um sameiningu. Þannig gefast tækifæri á næstu vikum bæði til að taka þátt í mótun framtíðarsýnarinnar og kynna sér niðurstöðu þeirrar vinnu vel.  Það er afar mikilvægt að taka þátt í umræðunni þegar til fundanna kemur og ég hvet öll til þátttöku hvort sem fólk er fylgjandi sameiningu eða ekki. Allar raddir skipta máli í jafn stórri ákvörðun sem auðvitað hefur bæði kosti og galla. Það má svo við þetta bæta að vinnan sem fram fer í tengslum við sameiningaráform, alveg sama hver niðurstaðan verður, er mjög gott tækfæri til að skoða kosti og galla okkar nærsamfélags og hvernig við sjáum það þróast á komandi árum. 

Áhugasöm geta skoðað fundargerð sveitarstjórnarfundarins hér.

Á föstudag tók ég mér frí og fór í stutta helgarreisu með eiginmanninum. Sumarfrísdögum er formlega lokið þetta árið ef frá eru taldir frídagar sem ég þarf að taka vegna annarra verkefna sem ég sinni meðfram mínum störfum, eins og til dæmis stjórnarsetu í Orkubúi Vestjarða og setu í ýmsum nefndum. Þó þessi vinnuvika hafi verið óvenju stutt var hún engu að síður viðburðarrík og góður upptaktur fyrir haustannirnar.

Mynd/Húnaþing vestra