Í dag, 8. nóvember, er haldinn Dagur gegn einelti, sem minnir okkur á mikilvægi þess að standa saman gegn órétti, fordómum og útilokun.
Markmið dagsins er að efla umræðu og fræðslu um einelti, hvetja til vináttu og samkenndar, og valdefla börn, ungmenni og fullorðna til að grípa inn í þegar þörf krefur.
Í tilefni dagsins hefur komið út nýtt lag sem ber nafnið „Öll í sama liði“ – eftir tónlistarfólkið Júlí Heiðar og Dísu.
Lagið flytur skýr skilaboð um virðingu, samstöðu og ábyrgð allra í samfélaginu. Það minnir á að við eigum öll að standa saman, því enginn á að vera einn eða útilokaður.
Lagið er hugsað sem hvatning til að byggja upp öruggt og jákvætt umhverfi fyrir börn og ungmenni þar sem hvert og eitt fær að njóta sín og tilheyra.
Einelti er ekki einkamál – það er ofbeldi sem getur haft djúpstæðar og langvarandi afleiðingar fyrir bæði þolendur og gerendur.
Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eiga öll börn rétt á vernd gegn ofbeldi, og það er skylda samfélagsins að bregðast við og standa vörð um þennan rétt.
Lagið „Öll í sama liði“ er komið í spilun á FM Trölla, það má einnig finna á Spotify.
