Ég hef alla tíð verið mjög stolt og sátt við nafnið mitt, Kristín Sigurjónsdóttir.

Ég var skírð Kristín í höfuðið á móðurömmu minni sem lést langt fyrir aldur fram þegar móðir mín var aðeins 10 ára gömul. Ég upplifði oft söknuð eftir því að fá ekki að hitta hana enda voru mér sagðar margar sögur af henni og var hennar sárt saknað af stórfjölskyldunni. Einnig hefur það alloft verið nefnt við mig að ég beri sterkan svip frá Kristínu ömmu í útliti og fasi.

Við vorum mjög margar Kristínar skírðar eftir henni og merkilegust fannst mér sagan af nöfnu minni á Írlandi. Sagan á bakvið hana var að amma og afi, þau Kristín Magnúsdóttir og Gunnlaugur Jónsson bjuggu austur á Raufarhöfn á stríðsárunum. Þar voru fyrir hermenn úr breska hernum og varð þeim vel til vina við Lynn sem var frá Írlandi, hann hét því einhvern tíman að ef hann eignaðist dóttir yrði hún nefnd Kristín sem varð svo raunin. Man ég eftir því þegar afi fór og heimsótti vin sinn til Írlands þegar ég var barn og kom síðan færandi hendi með þjóðbúningadúkku frá nöfnu minni sem hún gaf mér.

Þrátt fyrir hvað ég hef verið sátt við nafnið mitt hef ég leitt hugann að því undanfarin ár að mig langaði að fá tengingu við móður mína, ásamt föðurnafninu.

Móðir mín hét Ásdís Magnea Gunnlaugsdóttir og var þá spurning hvort nafnið ég notaði og þá hvernig.

Úr varð að ég ákvað að bæta nafninu Magnea við sem millinafni og sótti um það til Hagstofu Íslands.

Það kom mér á óvart hvað þetta ferli er auðvelt, sækja þarf um breytingu á nafni rafrænt hjá Þjóðskrá Íslands, síðan er settur inn greiðsluseðill í heimabankann. Nafnabreytingin gengur síðan í gegn þegar greiddar hafa verið 9.000 kr. fyrir viðvikið.

Það var síðan 4. maí 2021 að ég fékk nafnið, Kristín Magnea Sigurjónsdóttir og ber því nafn beggja foreldra minna með stolti.