Brauð með ítalskri fyllingu

  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 10 sólþurrkaðir tómatar
  • 500 gr nautahakk
  • smjör til að steikja í
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 2 msk þurrkuð basilika eða 1 box fersk basilika
  • 1-2 tsk salt
  • pipar
  • smá sykur
  • 1 dl blandaðar steinlausar ólívur
  • 125 gr ferskur mozzarella
  • 150 gr rifinn ostur
  • 1 brauðhleifur

Hitið ofninn í 175°. Hakkið lauk, hvítlauk og sólþurrkaða tómata. Steikið nautahakkið með laukunum og bætið síðan niðursoðnum tómötum, sólþurrkuðum tómötum og basiliku á pönnuna. Leyfið þessu að sjóða í 10 mínútur og bragðbætið með salti, pipar og smá sykri. Takið af hitanum og leyfið að kólna aðeins.

Skerið lok af brauðinu og takið úr því þannig að eftir standi ca 2 cm kantur um brauðið. Skerið ólívurnar smátt og mozzarella ostinn í bita. Blandið rifnum osti, ólívunum og mozzarella ostinum í kjötblönduna og fyllið brauðið með blöndunni. Leggið lokið á brauðið og pakkið því inn í álpappír. Setjið í ofninn í ca 30 mínútur eða þar til brauðið er heitt í gegn.

Berið fram heitt með góðu salati.

Uppskrift: Ljúfmeti og lekkerheit