Lagt var fram til kynningar vinnuskjal deildarstjóra tæknideildar á 698. fundi Bæjarráðs Fjallabyggðar með lista yfir gangstéttaviðgerðir sem áformað er að vinna í í sumar í Ólafsfirði og á Siglufirði.

Listinn er með þeim hætti að ástand steyptra gangstétta var metið í þrjá forgangsflokka þar sem fyrsti flokkur á við um stéttar sem eru svo illa farnar að af þeim er talin stafa slysahætta.

Í sumar er áætlað að samtals verði endursteyptir rúmlega 1.600 m² af stéttum á Siglufirði sem allar teljast til fyrsta forgangs. Þar má nefna gangstéttir við Hvanneyrarbraut, Hólaveg og Hlíðarveg, samtals rúmlega 1.000 m².

Í Ólafsfirði verða endursteyptir rúmlega 400 m² af stéttum við Ólafsveg og Ægisgötu.

Þar sem nú stendur yfir vinna við deiliskipulag á þjóðveginum í gegn um Ólafsfjörð, þ.e. Aðalgötu og aðliggjandi svæði, verður ekki farið í endurnýjun gangstétta þar fyrr en næsta sumar. Umfang þeirrar endurnýjunar er nálægt 1.700 m² af gangstéttum.